Umfjöllun og viðtöl: Þór Þ. - Tindastóll 85-89 | Iðnaðarmannasigur hjá Stólunum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Pétur Rúnar Birgisson.
Pétur Rúnar Birgisson. Vísir/Eyþór

Eftir að hafa verið 16 stigum undir í fyrri hálfleik náði Tindastóll að koma til baka og knýja fram sigur gegn Þór Þorlákshöfn, í Þorlákshöfn, í Domino’s deild karla í körfubolta í kvöld.

Heimamenn í Þór byrjuðu leikinn mun betur og leiddu með níu stigum eftir fyrsta leikhlutan. Stólarnir voru á tímum að spila mjög flottan sóknarleik en skotin duttu ekki fyrir þá. Þórsarar juku á forystuna í öðrum leikhluta og komust mest í 16 stiga forystu 32-16. Þá ákváðu Stólarnir að fara að spila almennilegan varnarleik og komu til baka og jöfnuðu leikinn. Staðan í leikhléi 39-39.

Allur seinni hálfleikurinn var mjög jafn. Liðin skiptust á að vera í forystu en náðu þó aldrei upp neinum afgerandi mun. Leikurinn var harður og mikið af villum en lítið um dýrðir. Í fljótu bragði er eitt varið skot í spjaldið og ein troðsla allt sem kallast má tilþrif sem áhorfendur fengu að sjá í þessum leik.

Stólarnir gerðu þó það sem ætlast er af þeim sem eitt af topp liðunum, að vinna ljótu leikina. Þórsararnir mega þó vera þokkalega ánægðir með frammistöðu sína hér í kvöld.

Afhverju vann Tindastóll?
Það að þeir náðu að koma til baka í öðrum leikhluta og jafna leikinn gerði í raun útslagið. Eftir það var leikurinn mjög jafn og eitt skot til eða frá hefði getað breytt úrslitunum.

Þeir sýndu þó að þeir eru með mjög gott lið, Sigtryggur Arnar Björnsson er enn frá vegna meiðsla og Þórsarar náðu að loka vel á Pétur Rúnar Birgisson, en þá stigu bara aðrir leikmenn upp og sýndu að þetta er ekki tveggja manna lið.

Hverjir stóðu upp úr?
Axel Kárason átti mjög góðan leik sem og Hannes Ingi Másson. Antonio Hester gerði vel að vanda en það voru áður nefndir Axel og Hannes sem áttu hvað bestan leik fyrir gestina.

Hjá heimamönnum var Emil Karel Einarsson öðrum framar. Hann hefur einstakt lag á að hitta virkilega stóru skotunum sem skipta svo miklu máli og það gerði hann í kvöld.

Hvað gekk illa?
Skotnýting Tindastóls, sérstaklega í fyrri hálfleik, var ekki til eftirleikni. Þeir náðu aðeins að rétta úr kútnum í seinni hálfleik og enduðu með 43 prósenta nýtingu sem er ásættanlegt. Hefðu hins vegar getað gert sér lífið auðveldara með að hitta betur í upphafi leiks.

Hvað gerist næst?
Það er þétt prógramm í deildinni þessa dagana. Stólarnir fara til Egilsstaða á fimmtudaginn og mæta Hetti sem vann sinn annan leik á tímabilinu í Keflavík í dag. Þórsarar sækja hins vegar Val heim í leik sem þeir verða að vinna til þess að gera út um tölfræðilega möguleika á falli.

Israel Martin. Vísir/Hanna

Israel: Sterkt lið sem spilar á mikilli snertingu
„Hver sigur er okkur mjög mikilvægur á þessum tímapunkti. Ekkert af liðunum er ferskt, sérstaklega ekki toppliðin, hvorki andlega né líkamlega. Mikið um meiðsli og að ná svona sigri er mjög stórt fyrir okkur,“ sagði Israel Martin, þjálfari Tindastóls, eftir leikinn.

„Við erum með þrjú lykil atriði sem við leitumst eftir að ná í hverjum leik. Að vinna frákasta baráttuna, ekki vera með fleiri en 12 tapaða bolta og að gefa fleiri en 20 stoðsendingar. Við náðum þessu og við unnum.“

Israel lét vel í sér heyra á hliðarlínunni og lifði sig inn í leikinn. Hann vildi þó ekki samþykkja að dómgæslan hafi hallað á hans menn.

„Þetta lið er mjög sterkt og spilar með mikilli snertingu. Eru lágvaxnir en snöggir. Ég þakkaði dómurunum fyrir góð samskipti eftir leikinn, ég fékk ekki tæknivillu. Þeir eru að reyna að gera sitt besta.“

„Ég gæti ekki ímyndað mér að vera dómari og við verðum að hjálpa þeim og bera virðingu fyrir þeim. Án dómara væri enginn körfubolti.“

Sigtryggur Arnar Björnsson hefur misst af síðustu þremur deildarleikjum Tindastóls. Israel sagði hann vera kominn í endurhæfingarfasann, en þó gæti hann ekki sagt til um hvenær hann snúi til baka.
 

Einar Árni Jóhannsson. Vísir/Ernir

Einar Árni: Svekkjandi að kasta forystunni frá sér
„Gríðalega svekktur að ná ekki að landa þessum tveimur stigum en ánægður með margt. Það voru mjög góðir kaflar í þessum leik en það komu líka daprir kaflar,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs, eftir leikinn.

Eftir að hafa kastað frá sér forystunni í öðrum leikhluta var hann samt ánægður með hvernig liðið kom til baka og barðist.

„Tveggja stiga leikur og við fáum opinn þrist í horninu sem datt ekki. Þeir fara yfir og setja þrist í horninu. Það er stutt á milli í þessu og virkilega svekkjandi því mér fannst við gera margt vel varnarlega.“

„Á sama tíma verður maður að hrósa Axel og Hannesi, þeir nýttu glufurnar og voru að skora vel. Mér fannst við ná að stjórna Pétri vel og Hester þurfti að hafa fyrir stigunum sínum.“

„Við vorum allt of köflóttir sóknarlega og vitum alveg sem er að við áttum menn inni í dag.“

„Auðvitað er vont að missa svona stóra forystu,“ sagði Einar aðspurður hvort hrunið í öðrum leikhluta hafi gert út um leikinn. „Hún fór allt of hratt en mér fannst við jafna okkur og koma inn í seinni hálfleikinn sem er í jafnræði meira eða minna.“

Axel Kárason vísir/andri

Axel: Kominn tími til að einhver annar fái að skjóta
„Nokkuð vel orðað að þetta sé iðnaðarsigur. Þetta er ótrúlega seigt lið sem ég verð að viðurkenna að komu mér á óvart í kvöld,“ sagði Axel Kárason eftir leikinn.

„Þeir spiluðu á fullu á báðum endum og í fyrri hálfleik refsuðu þeir okkur mjög vel. Svo koma strákar inn með gott áhlaup og við náum að jafna og siglum í gegnum þetta í seinni hálfleik.“

„Fyrst og fremst þessi frábæra vörn sem strákarnir spila í öðrum leikhluta,“ sagði Axel að væri lykillinn að sigri Tindastóls. „Að ná að koma til baka og jafna í hálfleik. Eftir það þá náum við að vera skrefinu á undan.“

Axel átti fínan leik í dag og setti niður 18 stig. Aðspurður hvort hann gæti nú loksins fengið að láta ljós sitt skína þegar Sigtryggur Arnar sé út úr liðinu sló Axel á létta strengi og játaði því.

„Nákvæmlega. Það er kominn tími til að það fái einhver annar að skjóta en þessi drengur. Ég hef ekki séð hann gefa boltann ennþá þannig að það er fínt að hann sé bara heima,“ sagði Axel léttur í bragði.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.