Sport

Konur fá ekki séns á klárunum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
vísir/getty
Fjórtán ára löng rannsókn háskólans í Liverpool sannar að konur og karlar eru jafngóð á hestbaki þegar kemur að veðreiðum sem er risastór íþrótt á Bretlandseyjum. BBC greinir frá.

Þrátt fyrir þetta hreinlega vilja flestir þjálfarar sem ala upp knapa og temja hesta ekki notast við stelpur. Fram kemur í þessari ítarlegu rannsókn að séu gæði hestsins tekin inn í formúluna munar litlu sem engu á körlum og konum.

Konur eru handhafar aðeins 11,3 prósent leyfa sem gera knöpum kleift að keppa í veðreiðum á Bretlandseyjum þannig ójöfnuðurinn er mikill.

„Það eru þjálfarar sem vilja einfaldlega ekki nota kvenkyns knapa,“ segir knapinn Gemma Tutty sem hefur keppt 600 sinnum í veiðreiðum og á 50 sigra að baki.

„Áður en við fáum tækifæri til að ríða út erum við í erfiðum málum því það eru færri þjálfarar sem vilja nota okkur. Vonandi mun þessi rannsókn fá fleiri þjálfara til að gefa konum tækifæri á baki.“

Í rannsókninni voru 1,25 milljón einstaka ferðir knapa skoðaðar og aðeins í 5,2 prósent þeirra voru konur á baki. Þrátt fyrir það voru konur 42 prósent allra starfsmanna í hesthúsum á Bretlandi árið 2010.

Í mars á síðasta ári fengu konur tveggja kílógramma forgjöf í sumum veðreiðum sem varð til þess að fjöldi kvenna tvöfaldaðist og sigrum þeirra fjölgaði um 165 prósent.

Breska veðreiðasambandið hefur sagst ætla að fara yfir þessi mál til að jafna hlut karla og kvenna í íþróttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×