Skoðun

Krabbamein kemur öllum við

Nú stendur yfir átak Krafts, stuðningsfélags, undir yfirskriftinni „Krabbamein kemur öllum við“. Um er að ræða vitundarvakningu um ungt fólk og krabbamein.

Árlega greinast um 70 manns á aldrinum 18 – 40 ára með krabbamein hér á landi. Það eru vondu fréttirnar. Góðu fréttirnar eru hins vegar að á undanförnum 45 árum hefur þeim, sem lifa lengur en fimm ár eftir greiningu, fjölgað um 25%. Ástæðan er án efa fólgin í betri meðferð og fullkomnari lyfjum. En þótt líkurnar á því að læknast af krabbameini, eða lifa með ólæknandi krabbameini, hafi aukist til muna, er auðvitað enn mikið áfall fyrir ungt fólk að greinast með þennan sjúkdóm og það er ekki síður þungbært fyrir aðstandendur að takast á við aðstæður þegar ástvinir þeirra greinast. Það álag er ekki bara tilfinningalegt – heldur hefur það ekki síður áhrif á lífsgæði allrar fjölskyldunnar auk fjárhagslegra byrða. Þar kemur Kraftur, stuðningsfélag, til sögunnar; félag sem styður við bakið á bæði þeim krabbameinsgreinda og aðstandendum hans.

Kraftur er lítið félag sem byggir afkomu sína á frjálsum framlögum frá einstaklingum og fyrirtækjum og nýtur auk þess ómetanlegs stuðnings frá Krabbameinsfélagi Íslands. Undanfarin þrjú ár hefur félagsmönnum Krafts fjölgað ört og að sama skapi hefur umfang félagsins aukist. Æ fleiri leita því til félagsins, t.d. eftir sálfræðiþjónustu, jafningjastuðningi eða styrk úr Neyðarsjóðnum. Því aukna álagi hefði félagið ekki getað mætt nema vegna þess að almenningur leggst á sveif með Krafti við að perla armbönd sem seld eru til fjáröflunar svo hægt sé að standa straum af fjölþættri starfsemi félagsins. Flestir fjölmiðlar landsins hafa sameinast um að styðja við bakið á Krafti varðandi birtingar á efni átaksins og með umfjöllun um það á annan hátt. Fyrir það, stuðning fyrirtækja og almennings auk allrar vinnu sjálfboðaliðanna við að perla armböndin, er félagið óendanlega þakklátt. Kraftur mun hér eftir sem hingað til standa undir trausti þeirra sem styrkja félagið með því að fara vel með söfnunarfé í þágu félagsmanna sinna.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×