Innlent

Rúrik leitar réttar síns vegna falskra Snapchat og Tinder reikninga

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rúrik Gíslason hefur kært brotin til lögreglu.
Rúrik Gíslason hefur kært brotin til lögreglu. vísir/valli
Knattspyrnukappinn og landsliðsmaðurinn Rúrik Gíslason segir að brotið hafi verið á friðhelgi einkalífs síns. Falskir reikingar hafi verið stofnaðir á samfélagsmiðlinum Snapchat og stefnumótaforritinu Tinder í hans nafni.

Í yfirlýsingu sem hann sendir fjölmiðlum í kvöld kemur fram að vakin hafi verið athygli á reikningunum í hans nafni um helgina. Við framkvæmd brotanna hafi ljósmyndir verið teknar ófrjálsri hendi af Instagram reikningi hans og þannig látið líta út fyrir að hann væri notandi reikninganna. Svo sé ekki.

„Hér er um alvarleg brot að ræða á friðhelgi einkalífs míns og annarra. Vegna alvarleika brotanna fól ég lögmanni mínum þegar í stað að leggja fram kæru hjá lögreglu og hefur það verið gert,“ segir í yfirlýsingu frá Rúrik.

DV var með samantekt um helgina yfir þekkta íslenska karlmenn sem nota Tinder. Var Rúrik nefndur í þeirri samantekt en af yfirlýsingu Rúriks má ráða að um falskan reikning var að ræða. 

Rúrik færði sig á dögunum um set í þýsku b-deildinni, frá Nürnberg yfir til Sandhausen. Hann ætlar sér sæti í landsliðshópi Íslands fyrir HM í Rússlandi næsta sumar. 

Yfirlýsing frá Rúrik Gíslasyni vegna falskra Snapchat og Tinder reikninga

Um helgina var athygli mín vakin á því að búið var að stofna falska Snapchat og Tinder reikninga í mínu nafni.

Við framkvæmd brotanna voru ljósmyndir af Instagram svæðinu mínu teknar ófrjálsri hendi og þannig látið líta út fyrir að ég væri notandi þessara reikninga.

Hér er um alvarleg brot að ræða á friðhelgi einkalífs míns og annarra. Vegna alvarleika brotanna fól ég lögmanni mínum þegar í stað að leggja fram kæru hjá lögreglu og hefur það verið gert.

Þýskalandi, 21. janúar 2018,

Rúrik Gíslason
 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×