Viðskipti erlent

Kínverjar segja Bandaríkin ógna alþjóðaviðskiptum

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Xi Jinping, forsetar Bandaríkjanna og Kína.
Donald Trump og Xi Jinping, forsetar Bandaríkjanna og Kína. Vísir/AFP
Utanríkisráðuneyti Kína segir Bandaríkin vera ógn við alþjóðaviðskipti, ekki Kína. Kínverjar hafa brugðist reiðir við því að ríkisstjórn Donald Trump sagði það hafa verið mistök að Bandaríkin hafi stutt inngöngu Kína í Alþjóðaviðskiptastofnunina, eða WTO, árið 2001. Yfirvöld Bandaríkjanna segja að Kína hafi ekki staðið við loforð sín um að opna efnahag sinn.

Eins og bent er á í frétt Reuters hafa Kínverjar stillt sér upp í forsvari fyrir alþjóðaviðskipti í ljósi „Bandaríkin fyrst“ stefnu Donald Trump. Alþjóðafyrirtæki hafa þó lengi gagnrýnt yfirvöld Kína og segja mikinn mun á því hvernig komið er fram við innlend fyrirtæki og því hvernig komið er fram við erlend fyrirtæki.



Þá hafa Kínverjar lengi verið sakaðir um að efnahagsstefnur með því markmiði að komast yfir tækni erlendra fyrirtækja. Trump sagði í síðustu viku að hann væri að íhuga að sekta Kínverja fyrir þjófnað á tækni bandarískra fyrirtækja.

Talskona Utanríkisráðuneytis Kína sagði í nótt að Kína hefði ávalt fylgt reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, fylgt ákvæðum hennar og stutt opin alþjóðaviðskipti. Hua Chunying sagðist telja að allir sæju að í rauninni væru það einhliða aðgerðir Bandaríkjanna sem grafi undan því kerfi sem alþjóðaviðskipti byggi á. Hún sagði mörg aðildarríki WTO hafa lýst yfir áhyggjum vegna aðgerðum Bandaríkjanna.

„Við vonumst til þess að Bandaríkin geti séð Kína í réttu ljósi og tekið eigin skref til að vernda það kerfi sem alþjóðaviðskipti byggja á.“

Fjöldi fyrirtækja þvinguð til að biðjast afsökunar

Til marks um það hvað alþjóðleg fyrirtæki þurfa að gera til að eiga í viðskiptum í Kína er hægt að benda á að yfirvöld Kína hafa að undanförnu þvingað forsvarsmenn fjölmargra alþjóðlegra fyrirtækja til að taka afstöðu gegn Tíbet og Taívan. Ellegar gæti fyrirtækjunum verið meinað að vera með starfsemi í Kína.

Það mál á uppruna sinn að rekja til þess að Marriott hótelkeðjan sendi út spurningalista á gesti þar sem Tíbet, Macao, Hong Kong og Taívan voru skráð sem ríki.

Tíbet er í raun sjálfstjórnarsvæði innan Kína eftir að það var hernumið árið 1950. Kínverjar tóku við stjórn Hong Kong eftir að Bretar létu af stjórn þar árið 1997. Macau og Hong Kong fylgja í raun ekki lögum Kína og þar gilda aðrar reglur.



Kínverjar hafa gert tilkall til Taívans allt frá árinu 1949 þegar leiðtogar lýðveldissinna í Kína flúðu þangað undan kommúnistum og stofnuðu þar ríki, sem þeir kölluðu, og kalla raunar enn, Lýðveldið Kína.

Fjölmargar afsökunarbeiðnir

Eftir að Marriott sendi út spurningalistann umdeilda var vefsvæði þeirra og appi í Kína lokað. Fyrirtækinu var hótað sektum ef ekki bærist afsökunarbeiðni til yfirvalda Kína. Sú afsökunarbeiðni var fljótt gefin út.



Forsvarsmenn Zara, Audi, Delta Air Lines, og allt í allt fleiri en tuttugu fyrirtækja, þurftu að biðjast afsökunar fyrir að flokka Taívan, Hong Kong, Tíbet og Macau, eða einhver af þeim, sem sjálfstæð ríki á vefsvæðum sínum. Fyrirtækjunum var einnig gert að breyta vefsvæðum sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×