Handbolti

Sigurganga lærisveina Guðmundar hélt áfram en strákarnir hans Dags fengu skell

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson.
Guðmundur Guðmundsson. Vísir/Getty
Landslið Barein vann í dag sinn þriðja leik í röð í Asíuleikunum í handbolta og komst einu skrefi nær undanúrslitunum. Lærisveinar Dags Sigurðssonar töpuðu hinsvegar með sautján marka mun.

Barein vann þá sex marka sigur á Sameinuðu arabísku furstadæmunum, 28-22, eftir að hafa verið 13-11 yfir í hálfeik.

Áður hafði lið Barein unnið 23 marka sigur á Ástralíu og sjö marka sigur á Óman.

Japan er líka í millriðli með Barein en átti aldrei möguleika á móti sterku liði Katar. Katar vann leikinn á endanum með sautján marka mun, 40-23, eftir að hafa verið 19-9 yfir í hálfleik.

Barein fær krefjandi verkefni á morgun þegar liðið mætir Katar en Japan spilar þá við Sameinuðu arabísku furstadæmin.

Tvær efstu þjóðirnar úr þessum fjögurra liða milliriðli komast í undanúrslitin en þau fjögur lið tryggja sér þátttökurétt á HM á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×