Erlent

Assange "meira en óþægindi“ fyrir ríkisstjórn Ekvadors

Kjartan Kjartansson skrifar
Ekvadorinn Julian Assange á heimili sínu í sendiráði Ekvador í London.
Ekvadorinn Julian Assange á heimili sínu í sendiráði Ekvador í London. Vísir/AFP
Lenin Moreno, forseti Ekvadors, lýsir Julian Assange, stofnanda Wikileaks, sem vandamáli sem stjórn hans hefur „fengið í arf“. Assange hafi verið „meira en óþægindi“ fyrir ríkisstjórn hans, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Assange hefur búið í sendiráði Ekvadors í London í fimm og hálft ár eftir að hann sótti um pólitískt hæli þar. Þrátt fyrir að rannsókn á nauðgun í Svíþjóð hafi verið látin falla niður hefur Assange ekki hætt sér úr sendiráðinu af ótta við að hann verði framseldur til Bandaríkjanna.

Þar hefur Assange haldið áfram að birta efni á Wikileaks, þar á meðal tölvupósta Demókrataflokksins í Bandaríkjunum í aðdraganda forsetakosninganna þar árið 2016, þrátt fyrir að Moreno hafi varað hann við að skipta sér ekki af stjórnmálum í Ekvador eða vinalöndum þess.

Rafael Correa, forveri Moreno, veitti Assange hæli. Ríkisstjórn Moreno hefur sagt að hún muni áfram veita Assange hæli en hefur einnig reynt að koma honum úr sendiráðinu án þess að hann verði handtekinn og sendur til Bandaríkjanna. Assange fékk ríkisborgararétt í Ekvador í desember.

Bresk stjórnvöld höfnuðu hins vegar að veita Assange réttindi sem sendifulltrúi Ekvador. Þau hefðu veitt Asssange friðhelgi. Moreno sagðist í sjónvarpsviðtali í gær vera vonsvikinn með viðbrögð Breta.

„Þetta hefði verið góð niðurstaða. Því miður gengu hlutirnir ekki eftir eins og utanríkisráðuneytið hafði áætlað þannig að vandamálið er enn til staðar,“ sagði Moreno sem ætlar að leita eftir aðstoð „mikilvægs fólks“ til að leysa vandamálið með Assange.


Tengdar fréttir

Veittu Assange ríkisborgararétt

Yfirvöld Ekvadór báðu Breta um að viðurkenna Julian Assange sem erindreka svo hann gæti yfirgefið sendiráð þeirra í London. Beiðninni var hafnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×