Enski boltinn

Sanchez: Draumi líkast að vera kominn til United

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sanchez skrifaði undir samning til fjögurra og hálfs árs við United
Sanchez skrifaði undir samning til fjögurra og hálfs árs við United
Alexis Sanchez ljóstraði því upp í dag að hann hafi verið nálægt því að ganga í raðir Manchester United þegar Sir Alex Ferguson var við stjórnvöllinn. Hann gekk til liðs við félagið í dag, sem að eigin sögn er það stærsta á Englandi.

Sanchez kom til United í skiptum fyrir Henrikh Mkhitaryan sem fór til Arsenal í hans stað. Skiptin eru búin að vera í undirbúningi undanfarna daga en voru staðfest í dag.

„Mig hefur alltaf dreymt um að spila fyrir Manchester United,“ sagði Sanchez í viðtali við sjónvarpsstöð félagsins í dag og bætti við að hann væri „ekki bara að segja þetta því ég er komin hingað núna.“

„Ég talaði einu sinni við Alex Ferguson um að koma hingað. Við spjölluðum í um 20 mínútur og ég sagði honum að mig dreymdi um að koma hingað til Manchester United.“

Sílemaðurinn er 29 ára og hefur verið á mála hjá Arsenal síðan 2014, en þar áður var hann hjá Barcelona undir stjórn Pep Guardiola.

„Þetta er risastórt félag. Þegar ég fékk tækifæri til að koma hingað, ég fékk gæsahúð, því þetta er sterkasta og stærsta félag á Englandi.“

„Þessi klúbbur hefur alltaf knúið mig áfram, rauði liturinn á treyjum Manchester United sker sig úr og ég er virkilega að tala frá hjartanu þegar ég segi að þetta sé draumi líkast og ég er virkilega ánægður,“ sagði Alexis Sanchez.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×