Enski boltinn

Klopp biðst afsökunar á að hafa misst sig við stuðningsmann Swansea

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jürgen Klopp hafði ástæðu til að svekkja sig í gærkvöldi.
Jürgen Klopp hafði ástæðu til að svekkja sig í gærkvöldi. vísir/getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, baðst afsökunar á því að hafa misst sig við einn stuðningsmann Swansea í viðtali eftir tap Liverpool á Liberty-vellinum í gærkvöldi.

Liverpool var ekki búið að tapa í fimmtán leikjum í röð þar til að mark miðvarðarins Alfie Mawson á 40. mínútu tryggði velska liðinu gríðarlega mikilvæg þrjú stig.

Einn stuðningsmaður Swansea sem sat ansi nálægt varamannabekk Liverpool ögraði Klopp nær allan leikinn en á endanum sprakk sá þýski og sneri sér að stuðningsmanninum. Hann segist ekki hafa sagt neitt ljótt við hann.

„Hann öskraði á mig allan tímann. Afsakið að ég hafi einu sinni sýnt einhver viðbrögð. Ég minnti sjálfan mig á að ég er mannlegur en ekki bara atvinnustjóri sem verður að sitja undir svona hlutum endalaust,“ sagði Klopp.

„Ég bað hann einu sinni um að hætta. Ég var ekki með upptökutæki á mér eins og hann þannig að enginn heyrði það. Þetta er í lagi. Svona er þetta bara. Það kom bara þetta eina augnlablik þar sem mér fannst nóg komið.“

„Stuðningsmanninum leið ansi vel því ekki megum við gera neitt. Hann var í góðri stöðu. Ég er eflaust ekki fyrsti stjórinn sem lendir í þessu. Ég held að þetta hafi verið ársmiðahafi. Þetta er samt mér að kenna líka. Ég átti ekki að bregðast við en ég sagði ekkert slæmt. Ég sýndi bara að ég var ekki ánægður með það sem hann var að segja,“ sagði Jürgen Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×