Íslenski boltinn

Veigar Páll á kaflaskilum: Sárt að rifja upp viðskilnaðinn við landsliðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Veigar í leik með Stjörnunni.
Veigar í leik með Stjörnunni. vísir/hanna

Veigar Páll Gunnarsson, fyrrum landsliðsmaður í knattspyrnu, ákvað nýverið að leggja knattspyrnuskóna á hilluna og taka stöðu í þjálfaraliði Stjörnunnar, æskufélagi sínu.

Veigar Páll varð Íslandsmeistari með Stjörnunni árið 2014 en fór frá félaginu fyrir ári síðan og gekk í raðir FH. Þaðan fór hann til Víkings í sumar.

Hann lék einni lengi með Stabæk í Noregi sem og Strömsgodset og Vålerenga þar í landi. Hann var einnig á mála hjá Nancy í Frakklandi á sínum tíma.

„Þetta er nýtt fyrir mér og ég á örugglega eftir að fá sjokkið,“ sagði Veigar Páll í viðtali við Hjört Hjartarson í Akraborginni á X-inu.

„En þetta var orðið erfitt fyrir mig og þetta var orðið vont. Leikmenn í dag eru orðnir aðeins of fljótir fyrir mig. Ég fann fyrir því sjálfur að þetta er rétti tímapunkturinn til að hætta,“ sagði hann.

Veigar Páll fór um víðan völl í viðtalinu en meðal þess sem þeir ræddu var viðskilnaðurinn við landsliðið árið 2011. Veigar Páll hafði þá verið í landsliðinu í áratug og skorað alls sex mörk í 34 leikjum.

„Það er sárt og erfitt. En þetta gerðist og ég þarf að kyngja því,“ sagði hann en honum sinnaðist við Ólaf Jóhannesson, þáverandi landsliðsþjálfara, og viðurkenndi Veigar að hafa brotið reglur landsliðsins um áfengisbann.

„Maður lærir af mistökum og þetta er eitthvað sem ég mun vara unga og efnilega leikmenn við að gera. Að gera ekki sömu mistök.“

„En eins og ég segi. Þetta er búið og gert. Ég geng sáttur frá borði.“

Veigar Páll þurfti oft að sætta sig við bekkjarsetu í landsleikjum en hann hann hafði skýringu á því. „Maður hefði viljað fleiri leiki í byrjunarliðinu en því miður var maður að nafni Eiður Smári í sömu stöðu og ég. Ég hafði skilning á því,“ sagði hann í léttum dúr.

Viðtalið allt má heyra hér fyrir neðan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.