Bíó og sjónvarp

Laun Mark Wahlberg 1,5 milljónir dollara en laun Michelle Williams þúsund dollarar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mark Wahlberg og Michelle Williams saman á frumsýningu myndarinnar.
Mark Wahlberg og Michelle Williams saman á frumsýningu myndarinnar. vísir/getty
Fullyrt er nú í erlendum fjölmiðlum að leikkonan Michelle Williams hafi aðeins fengið þúsund dollara fyrir þau atriði sem taka þurfti upp aftur fyrir myndina All the Money in the World á meðan að mótleikari hennar, Mark Wahlberg, hafi fengið 1,5 milljónir dollara fyrir tökurnar.

Williams fékk því innan við eitt prósent af heildarlaunum mótleikarans og vilja ýmsir meina að dæmin um kynbundinn launamun gerist ekki augljósari. USA Today sem greindi frá málinu og hafði eftir þremur mismunandi heimildarmönnum sem þekktu til málsins.

 

Taka þurfti upp atriði í myndinni aftur þar sem leikstjórinn, Ridley Scott, rak Kevin Spacey frá verkinu eftir að ásakanir á hendur honum um kynferðislega áreitni komu fram fyrir nokkrum mánuðum. Réð Scott Christopher Plummer til þess að taka við hlutverki J. Paul Getty, sem Spacey hafði túlkað, og þurfti því að taka upp allar senur þar sem Getty kom við sögu aftur.

Síðastliðinn sunnudag sagði Scott í viðtali við Guardian að leikararnir sem hefðu þurft að koma inn til að taka atriðin upp aftur hefðu samþykkt að gera það án þess að fá greitt fyrir. Fram kemur hins vegar í USA Today að Wahlberg hafi fengið lögfræðingateymi sitt til að semja fyrir sig um greiðslu en Williams var ekki sagt frá því samkomulagi.

Hvorugt þeirra hefur tjáð sig um málið en Williams er ein af stofnendum herferðarinnar Time‘s Up, sem leidd er af 300 konum í skemmtanabransanum í Hollywood, og er ætlað að leiðrétta það valdaójafnvægi sem hefur ríkt þar sem og á almennum vinnumarkaði í Bandaríkjunum.

Ýmsar Hollywood-stjörnur hafa tjáð sig um málið á Twitter, eins og sjá má hér fyrir neðan, og fordæmt þennan launamun.


Tengdar fréttir

Ridley Scott lætur Kevin Spacey fjúka

Breski kvikmyndaleikstjórinn Ridley Scott ætlar að skipta bandaríska leikaranum Kevin Spacey út fyrir annan leikara í nýjustu kvikmynd sinni, All the Money in the World, en aðeins er rúmur mánuður í að myndin verði frumsýnd.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×