Skoðun
Guðmundur Andri Thorsson.

Þetta snýst um traust

Guðmundur Andri Thorsson skrifar

Þetta kann að þykja róttæk kenning – en dómaraskipan er ekki einkamál Sjálfstæðismanna. Hún er ekki einu sinni einkamál lögmanna heldur varðar alla landsmenn. Það er ein forsendan fyrir heilbrigðu þjóðlífi að dómstólar séu sjálfstæðir og lausir við íhlutun hins pólitíska valds, klíkuvalds og auðvalds.

Það er góðra gjalda vert hjá forsætisráðherra að skipa ágæta nefnd með ágætu fólki um að auka traust á stjórnmálum. En óneitanlega gerir ýmislegt nefndinni erfitt fyrir. Til dæmis þetta: Dómsmálaráðherra hefur fengið á sig dóm Hæstaréttar um að hún hafi brotið lög við skipan dómara í Landsrétt – en situr þó enn. Og ekkert fararsnið á henni enda nýtur hún trausts forsætisráðherra.

Og enn lætur Sjálfstæðisflokkurinn eins og skipan dómara sé innanflokksmál þar á bæ.

Þetta er áhyggjuefni. Það hefur verulega reynt á dómstóla hér á undanförnum árum vegna flókinna fjársvikamála sem komu upp við Hrunið. Auðugir sakborningar berjast um á hæl og hnakka við að ónýta mál á hendur sér og hafa reynt með öllum ráðum að koma í veg fyrir eðlilega málsmeðferð. Þessir aðilar vilja eflaust hafa hönd í bagga með því hverjir dæma í fjársvikamálum sem þeim tengjast.

Við vitum líka að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki einskært lífsskoðunarfélag heldur rammgert tengslanet auðs og valda og að auðmenn hafa þar mikil ítök.

Ráðningar dómara þurfa að vera hafnar yfir vafa og því er afar óheppilegt fyrir dómsvaldið, rannsóknaraðila og þjóðina almennt, að Sjálfstæðismenn skuli hunsa niðurstöður hæfnisnefnda til að koma að þóknanlegri dómurum eða fara að niðurstöðum með hundshaus.

Mikilvægt er að standa vörð um þrígreiningu ríkisvaldsins – og sjálfstæði dómstóla gagnvart ásælni hins pólitíska valds og auðmanna sem sjá hag sinn í því að vita af vinsamlegum dómurum að störfum. Þetta snýst nefnilega um traust: Almenningur verður að geta treyst því að dómarar landsins dæmi eftir lögum burtséð frá tengslum við Flokk og fjárplógsmenn.

Þó að hitt sé vissulega góðra gjalda vert: að skipa ágætar nefndir með ágætu fólki.
 
Höfundur er alþingismaður.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.