Handbolti

Geir: Má ekki slaka á þrátt fyrir sigur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Ernir
Geir Sveinsson, þjálfari íslenska liðsins, var ánægður með að vinnan sem strákarnir lögðu á sig fyrir leikinn gegn Svíum borgaði sig. Ísland vann í dag sigur á Svíum í fyrsta leik liðanna á EM, 26-24.

„Ég neita því ekki að það var gott að byrja mótið á sigri. Ég er stórkostlega ánægður með drengina,“ sagði þjálfarinn sem viðurkenndi að hann skynjaði að það væri góður andi í hópnum fyrir þennan leik.

„Við vorum búnir að leggja mikla vinnu í að skoða Svíana og eyða miklum tíma í þá. Og það er greinilegt að sú vinna skilaði sér,“ sagði Geir.

„Við vorum búnir að ræða þetta vel fyrir leikinn og að mörgu leyti gekk það sem við ætluðum að gera upp í fyrri hálfleik. Frammistaðan hjá Bjögga var líka frábær,“ sagði Geir sem íhugaði að gera breytingar í síðari hálfleik, þegar það fór að halla undan fæti.

„Það kom mjög erfiður kafli þar sem þeir sóttu hart að okkur og við fengum litla markvörslu. Við reyndum að halda í það sem hafði virkað og það gekk upp.“

Geir segir að það hafi verið 3-0 kafli Svíþjóðar þegar þeir voru undirtölu sem kveikti í þeim gulklæddu. „Allt í einu minnkaði níu marka forysta í sex. Yfirtalan gekk ekki vel hjá okkur en það er enginn að velta þessu fyrir sér núna. Við munum skoða þetta vel í framhaldinu en niðurstaðan er góð.“

Þjálfarinn segir að hans vinna verði svo sem ekki léttari þrátt fyrir sigurinn. „Það má ekkert slaka á þrátt fyrir að við séum með tvö stig. Við getum samt setið eftir.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×