Handbolti

Heimsmeistararnir mörðu sigur á Norðmönnum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Nikola Karabatić er enn á sínum stað í franska liðinu
Nikola Karabatić er enn á sínum stað í franska liðinu vísir/epa
Liðin sem mættust í úrslitaleik Heimsmeistaramótsins fyrir ári síðan mættust í dag í seinni leik B-riðils á fyrsta keppnisdegi Evrópumótsins í handbolta sem fram fer í Króatíu.

Frakkar höfðu betur í úrslitaleiknum fyrir ári og þeir fóru einnig með sigurinn í kvöld í hörkuspennandi viðureign gegn Norðmönnum.

Það voru Norðmenn sem skoruðu fyrsta markið, en Frakkar svöruðu strax og náðu forystunni í leiknum snemma í fyrri hálfleik. Norðmenn héldu þó í við þá og náðu að jafna þegar hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður í 10-10.

Norðmenn komust svo yfir og náðu mest þriggja marka forskoti, en hálfleikstölur í Porec voru 15-17. Þeir gerðu svo vel í að halda forystu sinni í byrjun seinni hálfleiks, en aldrei fór forskotið í meira en þrjú mörk.

Frakkar jöfnuðu 27-27 þegar 51 mínúta var komin á klukkuna. Eftir það var leikurinn í járnum alveg til loka, en Frakkar fóru að lokum með 32-31 sigur. Svekkjandi úrslit fyrir Norðmenn sem höfðu verið yfir megnið af leiknum.

Staðan í B-riðli eftir fyrsta keppnisdag er því þannig að Frakkar og Hvít-Rússar eru með 2 stig en Norðmenn og Austurríkismenn án stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×