Innlent

Ísland í umheiminum og staða dómstóla í Víglínunni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ísland tekur við forystu í Norðurskautsráðinu á næsta ári en loftslags- og umhverfismál skipa æ ríkari sess hjá flestum þjóðum heims þótt Bandaríkin undir forystu Donald Trump hafi ákveðið að draga sig úr meira og minna öllu alþjóðlegu samstarfi á þeim sviðum. Kínverjum vex hins vegar ásmegin á alþjóðavettvangi og lýsa þeir áhuga á samstarfi við Ísland og önnur Norðurlönd.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kemur í Víglínuna til að ræða þessi mál og fleiri, meðal annars fiskveiðisamninga við frændur okkar og bræður Færeyinga sem nú eru í uppnámi í fyrsta sinn um langt árabil.

Mikið hefur verið rætt um stöðu dómstóla að undanförnu en fyrir tæpu ári stóð styr um skipan dómara í Landsrétt og undanfarnar vikur hefur sömuleiðis verið óeining um skipan átta nýrra dómara við Héraðsdóm.

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra og Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar mæta í Víglínuna til að reifa þau mál og fleiri sem tengjast verkefnum dómsmálaráðuneytisins. Þar má nefna stöðu löggæslu og Landhelgisgæslunnar, sem leigja hefur þurft út flugvél, þyrlur og skip til að eiga fyrir rekstri sínum.

Víglínan er í opinni dagskrá og beinni útsendingu á Stöð 2 og Vísi klukkan 12:20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×