Skoðun

Takk fyrir 40 árin – Rithöfundasamband Íslands!

Bjarni Bernharður skrifar
Mér var gerður nauðugur einn kostur að segja mig úr Rithöfundasambandi Íslands, eftir 40 ára veru í sambandinu.

Það sem réði því var óvild stjórnarliða í minn garð, óvild sem kom meðal annars til vegna gagnrýni minnar á aðalfundum, á störf sambandsins og þá sérstaklega gagnrýni á sjálftöku formanns úr launasjóð rithöfunda, en auk þess að hafa þrjár milljónir í árslaun fyrir starf sitt innan RSÍ, hefur formaðurinn skammtað sér tólf mánaða ritlaun á ári hverju, síðan 1996, sem ég tel vera „siðlaust“.

Þó ber geta þess, að Aðalsteinn Ásberg sótti aldrei um meira en sex mánaða ritlaun, í sinni formannstíð. Þá setti ég fram harða gagnrýni á stjórnir og formenn RSÍ, síðustu 10 - 15 ára, fyrir þann ræfildóm og ódug að hafa lekið niður launasjóði rithöfunda, fyrir að láta pólitíkusa svínbeygja sig – en þá er illa komið, ef rithöfundar eru hræddir við pólitíkusa, í raun á það að vera öfugt.

Í tvígang hefur nafn RSÍ blandast inn í aðför að persónu minni, fyrst 2014, þegar formaður þess reyndi að siga geðkerfinu á mig, vegna kjallagreinar sem ég skrifaði um aðalfundinn 2012, í DV – en formaðurinn hafði sem betur fer ekki árangur sem erfiði. Svo aftur sl. vor, þegar RSÍ stóð óbeint fyrir því að ég var nauðungavistaður á bráðageðdeild í 72. tíma (gjörsamlega andlega heill) – sem reyndar var mjög heppilegt fyrir sambandið, því aðalfundur var einmitt haldinn meðan vistun mín stóð yfir.

Nú á dögunum var sett á mig lífstíðar útilokun frá lokaðri Facebook- síðu RSÍ. Ég hef vissu fyrir því að stjórnarliðar stóðu á bak við þá aðgerð. Skýringin sem var gefin, var að ég væri of frekur á plássið á síðunni. Það er rétt, ég var fyrirferðamikill á síðunni, en það kom til vegna þess að enginn annar rithöfundur nennti að koma með innlegg á síðuna, hvað þá að skiptast á skoðunum við mig, en mér hefur verið sagt, að það hafi komið til vegna þess að þeir voru hræddir við að mæta mínu eitraða stílvopni.

Innlegg mín á þessa lokuðu síðu RSÍ voru í þá veru, að ég var að hvetja aðra rithöfunda út á ritvöllinn í menningar- og þjóðfélagsumræðu. Það að varna mér að vera virkur í umræðum við aðra rithöfunda á þessari RSÍ síðu, um alla framtíð, var það sem fyllti mælinn. Ég sá að fullreynt var fyrir mig að reyna að færa réttindamál höfunda til betri vegar á þessum vettvangi (sem félagi í RSÍ) þótt svo augljóslega væri ýmsu ábótavant – og skilaði inn skírteininu. Í raun er ég maður sátta og hefði frekar kosið að vera áfram innan Rithöfundasambands Íslands , ef þess hefði verið kostur – en því miður, því var ekki að heilsa.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×