Handbolti

Danir hefndu ófaranna fyrir Guðmund

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rasmus Lauge átti stórleik í kvöld.
Rasmus Lauge átti stórleik í kvöld. Vísir/Getty

Danir fara vel af stað á EM í handbolta eftir öruggan sigur á Ungverjum í D-riðli í kvöld, 32-25.

Þar með náðu þeir að hefna fyrir óvænt tap liðsins fyrir Ungverjum í 16-liða úrslitum HM í Frakklandi í fyrra. Það reyndist vera síðasti leikur Guðmundar Guðmundssonar með danska landsliðið.

Danir voru með tveggja marka forystu að loknum fyrri hálfleiknum, 14-12, en stungu Ungverja af í þeim síðari. Mestu munaði um 6-1 kafla Dana snemma í síðari hálfleik.

Rasmus Lauge Schmidt skoraði sjö mörk fyrir Dani og Mikkel Hansen sex. Mate Lekai skoraði fimm mörk fyrir Ungverja.

Niklas Landin fann sig engan veginn í marki Dana í kvöld og varði aðeins eitt af þeim ellefu skotum sem hann fékk á sig í kvöld. Jannick Green kom inn og átti stórleik - varði 10 skot og var með 43% hlutfallsmarkvörslu.

Í sama riðli fóru Spánverjar létt með Tékka, 32-15. Tékkar voru sjö mörkum undir í hálfleik, 16-9, og skoruðu svo aðeins sex mörk í síðari hálfleik.

Þrír leikmenn skoruðu fimm mörk fyrir Spánverja í kvöld - Valero Rivera, Raul Entrerrios og Ferran Sole en markahæstur hjá Tékkum var Stanislav Kasparek með fimm mörk.

Rodrigo Corrales átti stórleik í marki Spánar eftir að hann kom inn á og varði átta skot - 57% þeirra sem hann fékk á sig í leiknum.

Í C-riðli vann Makedónía heldur óvæntan sigur á Slóveníu, 25-24. Filip Lazarov skoraði sigurmark Makedóníu en ekkert var skorað síðustu þrjár mínútur leiksins.

Tveir menn - Dejan Manaskov með átta mörk og Lazarov með sjö - skoruðu fimmtán af 25 mörkum Makedóníu í kvöld.

Fyrr í dag vann Þýskaland öruggan sigur á Svartfjallalandi í sama riðli, 32-19.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.