Handbolti

EM-dagbókin: Keðjureykjandi Króatar

Henry Birgir Gunnarsson í Split skrifar
Balic nennti varla að standa upp til þess að spila handbolta. Er hann gerði það átti enginn möguleika í hann. Ótrúlegur íþróttmaður sem fékk sér svo kannski sígó í hálfleik. Óstöðvandi.
Balic nennti varla að standa upp til þess að spila handbolta. Er hann gerði það átti enginn möguleika í hann. Ótrúlegur íþróttmaður sem fékk sér svo kannski sígó í hálfleik. Óstöðvandi. vísir/getty

Hin stórkostlega íþróttaþjóð Króatía hefði mjög gott af því að eiga eitt stykki króatískan Þorgrím Þráinsson því hér reykja svo gott sem allir.

Að koma til Króatíu er eins og að stíga áratugi aftur í tímann. Ekki bara eru allir reykjandi í Króatíu heldur er vel hugað að þörfum reykingamannsins. Það er ekkert sem bendir til þess að þjóðin sé að reyna að minnka reykingar.

Það þarf að hafa verulega fyrir því að finna veitingahús sem er reyklaust. Þetta er verulega þreytandi. Foreldrar mínir reyktu yfir mig mörg karton er ég var að alast upp og ég tel mig vera búinn með minn kvóta í þessum efnum.

Geggjaðir þrátt fyrir sígóið
Það sem er þó áhugavert er hversu margir króatískir íþróttamenn reykja. Það er ekkert óalgeng sjón á stórmótum að sjá fjölda króatískra leikmanna saman í kaffi og sígó. Ekki gleyma að Króatar eru stórkostleg íþróttaþjóð. Við komuna hingað fékk ég útprentað skjal með helstu afrekum liða og leikmanna Króatíu. Magnaður lestur vægast sagt. Þetta er mögnuð íþróttaþjóð.

Ég man samt enn hvað mér brá er ég sá stórstjörnuna Ivano Balic reykja!!! Hann var þá (lang)besti handboltamaður heims. Fullkomlega óþolandi leikmaður. Af því hann var svo góður.

Töffari með rettuna? Balic er stórreykingamaður.

Ótrúlega hæfileikaríkur. Húðlatur andskoti (afsakið orðbragðið, þessi leti var bara móðgandi) og hrikalegur svindlari. Ég meina hann fór kannski út að reykja í hálfleik og kom svo út á völlinn og pakkaði öllum saman. Það er móðgun.

Hann kom alltaf sínu fram og sá til þess að Króatía pakkaði flestum saman. Einn af þessum snillingum sem maður elskaði að hata.

Strákarnir okkar hafa háð nokkrar rimmur við Króatana gegn Balic og þessir keðjureykjandi snillingar (Balic var langt frá því einn í sígóinu) höfðu  oftast betur. Það er frekar pirrandi. Toggi Þráins á engar afsakanir þarna.

Króatar eru með slíka íþróttamenn að ég man varla eftir að hafa búist við sigri gegn þeim. Nú verða ellefu þúsund háværir áhorfendur með þeim í liði. Ég býst því ekki við sigri í dag en vona að strákarnir sýni samt góðan leik. Slíkur er munurinn enn milii þjóðanna þrátt fyrir frækinn sigur fótboltalandsliðsins. Enn betra væri samt ef þeir kæmu mér á óvart. Ég er alveg til í það.


Tengdar fréttir

Duvnjak úr leik hjá Króötum

Einn sterkasti leikmaður Króata, Domagoj Duvnjak, meiddist í leik liðsins við Serbíu í gærkvöld og er tvísýnt um þáttöku hans í þeim leikjum sem eftir eru á Evrópumótinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.