Enski boltinn

Messan: Salan á honum er búin að vera skrýtið fíaskó

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ríkharð Óskar Guðnason og gestir hans í Messunni í gær ræddu meðal annars nýjasta leikmanninn hjá Englandsmeisturum Chelsea.

Chelsea keypti Ross Barkley á dögunum fyrir fimmtán milljónir punda en þessi 24 ára enski miðjumaður hefur ekkert spilað með Everton á tímabilinu vegna meiðsla.

„Það fer að styttast í það að þessi fari að koma við sögu hjá Chelsea. Þessi sala á honum til Chelsea er nú búin að vera skrýtið fíaskó,“ sagði Rikki G þegar hann hóf umræðuna um Ross Barkley og kaup Chelsea.

„Þeir eru búnir að vera lengi á eftir honum og reyndu að fá hann fyrir tímabilið. Þeir taka hann núna þegar hann er að verða samningslaus. Hann er alltaf meiddur þessi gæi,“ sagði Reynir Leósson.

„Maður spyr sig hvort að hann sé búinn að vera auka meiddur af því hann hafi verið búinn að ákveða það að fara. Það er kraftur í þessum strák en ég held að þetta sé svolítið mikið enski stimpillinn,“ sagði Ríkharður Daðason.

Það má sjá allt innslagið og umræðuna um Ross Barkley í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×