Fótbolti

Heynckes myndi aldrei semja við Aubameyang eða Dembele

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Aubameyang og Dembele léku saman hjá Dortmund
Aubameyang og Dembele léku saman hjá Dortmund vísir/getty
Knattspyrnustjóri Bayern Munich, hinn 72 ára Jupp Heynckes, sagði að hann myndi aldrei vilja ráða leikmenn eins og Ousmane Dembele og Pierre-Emerick Aubameyang eftir að hafa horft upp á hegðun þeirra gagnvart Dortmund.

Dembele var seldur til Barcelona í sumar, en áður en salan gekk í gegn ákvað Dembele að fara í verkfall og sleppa því að mæta á æfingu. Hann var þá settur í agabann af félaginu.

Aubameyang hefur verið sterklega orðaður við Arsenal á síðustu dögum, ekki síst eftir að Arsene Wenger fór fögrum orðum um hann á blaðamannafundi í gær. Hann hefur ekki mætt á síðustu tvo liðsfundi Dortmund.

„Það er óásættanlegt hvernig sumir leikmenn hegða sér. Svona stöður hafa alltaf komið upp, en nú hafa þær náð nýjum hæðum,“ sagði Heynckes.

„Ég er mjög gagnrýnin á svona hegðun því leikmennirnir halda að þeir séu með einhver forréttindi. Mál Philippe Coutinho var svipað, en var leyst á mun fágaðari hátt.“

„Félög ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þau semja við svona leikmenn. Í sannleika sagt þá myndi ég aldrei gera það. Það verður að sýna leikmönnunum að þetta er ekki í boði,“ sagði Jupp Heynckes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×