Erlent

Trump gefur lítið fyrir bókina

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Einhver eldfimustu ummælin úr nýju bókinni koma úr munni Steven Bannon, fyrrverandi aðalráðgjafa forsetans, sem sést hér með Donald Trump.
Einhver eldfimustu ummælin úr nýju bókinni koma úr munni Steven Bannon, fyrrverandi aðalráðgjafa forsetans, sem sést hér með Donald Trump. VÍSIR/GETTY
Donald Trump, Bandaríkjaforseta, er ekki skemmt vegna þeirrar athygli sem bókin „Eldur og brennisteinn: Innan úr Hvíta húsi Trump“ [e. Fire and Fury: Inside the Trump White House] hefur fengið síðastliðinn sólarhring. Í bókinni lýsir rithöfundurinn Michael Wolff ástandinu innan veggja Hvíta hússins og greinir frá ýmsum misvandræðalegum augnablikum úr forsetatíð Trump.

Þá hefur hún eftir Steve Bannon, fyrrverandi aðalráðgjafa Trump, að fundur sem tengdasonur hans og sonur áttu með Rússum í aðdraganda forseta kosninganna hafi verið landráð. Eldfim ummæli í ljósi alls þess sem gengið hefur á vestanhafs síðastliðið ár. Brot úr bókinni birtust á helstu vefmiðlum Bandaríkjanna í gær og ekkert var rætt meira þar í landi en glefsur úr bók Wolff.

Sjá einnig: Tíu bombur úr nýrri bók um Trump

Forsetinn reynir nú hvað hann getur til að grafa undan trúverðugleika bókarinnar og á Twitter í nótt sagði hann bókina vera uppfulla af lygum. „Ég veitti engan aðgang að Hvíta húsinu (í sannleika sagt vísaði ég honum frá nokkrum sinnum),“ sagði Trump meðal annars. Höfundur bókarinnar segir sig hafa rætt við rúmlega 200 manns og hafi haft nær takmarkalausan aðgang að Hvíta húsinu fyrst eftir að Trump tók við embætti. Þá á forsetinn að hafa vitað af skrifum hans.

Trump segir þó að bókin sé ekki aðeins smekkfull af lygum heldur einnig rangtúlkunum og upplognum heimildarmönnum.

Sjá einnig: Háttatími Trump í Hvíta húsinu: Þrjú sjónvarpstæki, ostborgari og sími

Lögmenn forsetans hafa reynt að fá lögbann á útgáfu bókarinnar, sem koma átti út á þriðjudaginn í næstu viku. Aðstandendur bókarinnar sáu sér þá leik á borð og flýttu útgáfu hennar. Áhugasamir geta keypt eintak af bókinni strax í dag.

Tíst forsetans frá því í nótt má sjá hér að neðan.

 


Tengdar fréttir

Tíu bombur úr nýrri bók um Trump

Ný bók blaðamannsins Michael Wolff um það sem gengur á innan veggja Hvíta hússins inniheldur fjöldann allan af afjhúpunum um forseta Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×