Innlent

IKEA-geitin lifði jólin af: Verður geymd á leynilegum stað næsta árið

Atli Ísleifsson skrifar
Jólageitin við IKEA var flutt á brott í morgun.
Jólageitin við IKEA var flutt á brott í morgun. Vísir/Kristinn Páll
Geitin sem síðustu vikur hefur staðið fyrir utan verslun IKEA í Garðabæ var flutt á brott í morgun.

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi, segir það mikið ánægjuefni að hún hafi lifað jólin af, en hún hefur oftar en ekki eyðilagst eða orðið fyrir skemmdum í þau skipti sem henni hefur verið komið upp. „Það var eiginlega allt gert til að tryggja það að hún yrði ekki skemmd,“ segir Þórarinn.

Er það þess vegna sem hún er tekin niður fyrir gamlárskvöld?

„Já, við erum með flugeldasölu hérna við hliðina á okkur. Það gæti verið full mikil freisting fyrir suma,“ segir Þórarinn léttur í bragði. „Neinei, við fengum einfaldlega bíl á þessum tíma og það passaði ágætlega að taka hana niður núna. Jólin eru í sjálfu sér búin núna og óþarfi að taka áhættu yfir áramótin.“

Þórarinn segir það trúnaðarmál hvar hún verði geymd næsta árið en henni verður svo komið upp á næsta ári. „Við höfum einu sinni áður náð að geyma geit á milli ára svo þessi verður hífð upp að ári,“ segir Þórarinn og bætir við að þetta sé í sjötta eða sjöunda árið í röð sem geit hefur verið komið upp við IKEA á Íslandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×