Erlent

Løkke óánægður með að hætt hafi verið með skólajólaguðsþjónustu

Atli Ísleifsson skrifar
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, vill að ákvörðunin verði tekin til endurskoðunar.
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, vill að ákvörðunin verði tekin til endurskoðunar. Vísir/AFP
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur lýst yfir óánægju með ákvörðun skólastjórnenda í grunnskólanum, þar sem hann stundaði sjálfur nám, að hætta við jólaguðsþjónustu í kirkju bæjarins fyrir nemendur skólans.

Forsætisráðherrann lýsti þessari skoðun sinni á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi.

BT greinir frá því að stjórnendur skólans í Græsted á Norður-Sjálandi hafi ákveðið að hætta við þátttöku skólans í guðsþjónustunni sem jafnan markaði upphafi jólafrís nemenda. Mörg barna við skólann eru ekki mótmælendatrúar og á það að hafa haft áhrif á ákvörðunina.

„Ég var í þann mund að skrifa færslu um jóladagatal mitt sem ég gerði í grunnskólanum í Græsted, þar sem ég var í fyrsta til níunda bekk, og svo sé ég þetta! Það þarf að endurskoða þetta!“ segir forsætisráðherrann og vísar í frétt BT.

Claus Hjortdal, formaður Félags skólastjórnenda í Danmörku, segir þó enga ástæðu fyrir Løkke að æsa sig. „Það stendur hvergi í skólalöggjöfin að maður verði að sækja kirkju og það eru til margir skólar þar sem slíkt hefur aldrei tíðkast,“ segir Hjortdal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×