Erlent

Viðvaningur reyndi að fremja hryðjuverkaárás

Samúel Karl Ólason skrifar
Hinn 27 ára gamli Akayed Ullah.
Hinn 27 ára gamli Akayed Ullah. Vísir/AFP
Hinn 27 ára gamli Akayed Ullah festi rörasprengju við bringu sína í dag. Hann gekk um götur Manhattan og sprengdi sprengjuna í samgöngumiðstöð nálægt Times-torgi á háannatíma. Niðurstaðan var þó sú að Ullah sjálfur særðist alvarlega og þrír aðrir hlutu lítilvæg sár. Ullah er sagður hafa fengið innblástur frá Íslamska ríkinu en talið er að hann hafi engin samskipti haft við vígamenn samtakanna og hafi staðið einn að árásinni.

Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, hefur lýst Ullah sem viðvaningi. Hann sagði blaðamönnum í dag að sprengiefnin í rörinu hefðu brunnið en engin sprenging hefði orðið. Því hefði hann sjálfur brunnið illa. Ullah mun hafa reynt að læra sprengjusmíði á internetinu.



Hvíta húsið og aðilar innan ríkisstjórnar Donald Trump hafa notað árásartilraunina til þess að ítreka málstað sinn og kalla eftir breytingum á innflytjendakerfi Bandaríkjanna.

Ullah flutti til Bandaríkjanna frá Bangladess árið 2011. Hann fékk þá landvistarleyfi í gegnum fjölskyldumeðlim sem hafði þegar flust til landsins. CNN segir hann hafa búið í sömu byggingu og bróðir sinn og nágrannar þeirra segjast hafa heyrt rifrildi á heimili hans síðust tvö kvöld. Um tíma starfaði hann sem leigubílstjóri. Undanfarið hefur hann starfað við rafiðnað.

Samkvæmt fjölmiðlum ytra virðist sem að hann hafi aldrei verið undir eftirliti yfirvalda Bandaríkjanna. Þá sagði lögreglustjórinn í heimabæ hans í Bangladess að hann væri ekki á sakaskrá og hann hefði síðast ferðast þangað í september.

Ullah mun hafa sagt lögregluþjónum að hann hefði reynt að gera árás vegna nýlegra aðgerða Ísraelsmanna á Gaza.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×