Erlent

Lét uppskrift að kanilbollum fylgja afsökunarbeiðni vegna kynferðislegrar áreitni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mario Batali sést hér undirbúa veislu í Hvíta húsinu árið 2016.
Mario Batali sést hér undirbúa veislu í Hvíta húsinu árið 2016. Vísir/AFP

Sjónvarpskokkurinn Mario Batali, sem sakaður hefur verið um kynferðislega áreitni, hefur verið rekinn sem stjórnandi matreiðsluþáttarins The Chew. Þátturinn var sýndur á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC en Batali hafði verið vikið tímabundið frá störfum við þáttinn á meðan ásakanirnar á hendur honum voru rannskaðar. Afsökunarbréf, þar sem Batali viðurkennir ósæmilega hegðun, hefur vakið mikla athygli.

Í frétt Variety segir að ABC hafi slitið öllu samstarfi við Batali, sem er einn frægasti sjónvarpskokkur í heimi. „Við erum staðráðin í því að viðhalda öruggu starfsumhverfi og hegðun hans brýtur í bága við reglur,“ segir í tilkynningu frá sjónvarpsstöðinni.

Fjölmargar konur hafa nú stigið fram og sakað sjónvarpskokkinn um kynferðislega áreitni. Áreitnin er sögð spanna að minnsta kosti 20 ára tímabil.

Þá hefur Batali einnig verið gert að stíga til hliðar í störfum fyrir fyrirtæki sitt Batali and Bastianich Hospitality Group. Sjónvarpsstöðin Food Network hefur einnig hætt við að endurvekja þáttinn Molto Mario, þar sem Batali öðlaðist fyrst heimsfrægð.

Hlekkur á uppskrift fylgdi afsökunarbeiðninni

Í yfirlýsingu frá Batali sjálfum, sem hann sendi út í formi fréttabréfs, baðst hann afsökunar á framferði sínu og sagðist bera fulla ábyrgð á gjörðum sínum. Þá hét hann því að „leggja hart að sér hvern einasta dag“ til þess að endurheimta traust aðdáenda sinna.

Athygli vakti þó að með afsökunarbeiðninni lét Batali fylgja uppskrift að sérstökum kanilbollum úr pítsudegi.

„Ef þið eruð á höttunum eftir morgunmat með hátíðarívafi, þá eru þessir pítsudegis-kanilbollur í uppáhaldi hjá aðdáendum mínum,“ skrifaði Batali. Meðfylgjandi var hlekkur á uppskriftina.

Eftir brotthvarf Batali standa meðstjórnendur hans Carla Hall, Clinton Kelly og Michael Symon vaktina í The Chew. Í kjölfar ásakananna hefur Batali verið fjarlægður úr öllu kynningarefni fyrir þáttinn.

Skjáskot af fréttabréfinu, þar sem finna má afsökunarbeiðni Batali og hlekk á téða uppskrift, er að finna í tístinu hér að neðan.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×