Íslenski boltinn

Sautján ára strákur tryggði Blikum jafntefli á móti KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Anton
Breiðablik og KR gerðu 1-1 jafntefli í Bose mótinu í Egilshöllinni í kvöld en Blikar jöfnuðu undir lokin. Jafnteflið tryggði Blikum sigur í leiknum og sæti í úrslitaleiknum.

Björgvin Stefánsson kom KR-ingum í 1-0 í fyrri hálfleik og það leit lengi vel út að það mark myndi tryggja Vesturbæjarliðinu sigurinn.

Hinn sautján ára gamli Kolbeinn Þórðarson var hinsvegar á öðru máli en hann jafnaði metin rétt fyrir leikslok.

Björgvin kom til KR-inga á dögunum en hann fór á kostum með Haukum í  Inkasso-deildinni síðasta sumar þar sem hann skoraði 14 mörk í 19 leikjum. Hann á aftur á móti ennþá eftir að sanna sig í Pepsi-deildinni.

Blikar unnu 8-1 sigur á Víkingum og KR-ingar hefðu því þurft að vinna mjög stórt til að taka af þeim efsta sætið.

Breiðablik og Stjarnan munu spila til úrslita um Bose bikarinn en KR mætir Fjölni í leiknum um þriðja sætið.

Markið hjá Vestbæjarliðinu í kvöld var reyndar af skrautlegri gerðinni.  

Björgvin Stefánsson fékk þá boltann á silfurfati í teignum eftir að Pálmi Rafn Pálmason vann boltann af sofandi varnarmanni Blika. Markið kom á 25. mínútu leiksins.

Kolbeinn Þórðarson var hinsvegar réttur maður á réttum stað undir lokin og kom boltanum yfir marklínuna af stuttu færi. Blikar höfðu pressað mikið á lokamínútunum og markið var búið að liggja í loftinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×