Erlent

„Ég hefði átt að skilja þá eftir í fangelsi!“

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
„Nú þegar Körfuboltamennirnir þrír eru komnir frá Kína og búið að bjarga þeim frá mörgum árum í fangelsi, er LaVar Ball, faðir LiAngelo, vanþakklátur fyrir það sem ég gerði fyrir son hans og hann er á því að búðahnupl sé lítið mál. Ég hefði átt að skilja þá eftir í fangelsi!“

Þetta skrifaði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, á Twitter í gær.

Þar var hann að vísa til þess að faðir eins af þremur háskólanemendum sem handteknir voru fyrir þjófnað úr verslun í Kína, hefur gert lítið úr þætti forsetans varðandi það að nemendunum þremur var sleppt frá Kína.

Um er að ræða þá LiAngelo Ball, Cody Riley og Jalen Hill sem sakaðir voru um að hafa stolið sólgleraugum úr Louis Vuitton verslun i borginni Hangzhou. Körfuboltalið þeirra hafði verið þar að keppa. Þeir voru handteknir og yfirheyrðir en voru aldrei fangelsaðir.

Þeim hefur öllum verið vikið úr liðinu og meinað að keppa aftur í háskóladeild Bandaríkjanna.

Trump segist hafa beðið Xi Jinping, forseta Kína, persónulega um að grípa inni.

Samkvæmt frétt CNN gerði faðir LiAngelo Ball lítið úr þætti Trump í því að syni hans hefði verið sleppt.

Forsetinn var ekki sáttur við það. Trump var þó ekki hættur og tísti aftur skömmu seinna.

„Búðahnupl er alvarlegt mál í Kína, eins og það ætti að vera (5-10 ár í fangelsi), en það finnst LaVar ekki. Ég hefði frekar átt að ná syni hans heim í næstu ferð minni til Kína. Kína sagði þeim af hverju þeim var sleppt. Mjög vanþakklátir!“

Þar er sagan þó ekki öll sögð því í síðustu viku, eftir að nemendunum þremur hafði verið sleppt, tísti Trump og fór beinlínis fram á það að hinir ungu menn myndu þakka honum fyrir.

„Haldið þið að að UCLA körfuboltaleikmennirnir muni segja þakka þér Trump forseti? Þeir stefndu á tíu ára fangelsisvist!“

Þetta tíst var skrifað snemma um morguninn nemendurnir höfðu ekki komið aftur til Bandaríkjanna frá Kína, nema nokkrum klukkustundum áður.

Þeir héldu svo blaðamannafund og þökkuðu forsetanum fyrir sem sendi þeim tvö tíst til viðbótar og óskaði þeim frábærs lífs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×