Innlent

Vegum lokað víða um land vegna veðurs

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vonskuveður er í Öræfum og er lokað þar.
Vonskuveður er í Öræfum og er lokað þar. lögreglan á suðurlandi
Vonskuveður er nú víða um land þar sem það tók að hvess á nýjan leik nú síðdegis af norðaustri. Við það hefur skafrenningur aukist ekki hvað síst um landið norðan-og austanvert en því fylgir að skyggni til minnkar.

Vegagerðin hefur því lokað vegum víða um land. Þannig er Holtavörðuheiði lokuð sem og Kleifaheiði. Þá er hringvegurinn lokaður frá Hrútafirði að Vatnsdal. Þá er jafnframt lokað í Öræfasveit og Lyngdalsheiði er einnig ófær.

 

Á sunnanverðu Snæfellsnesi eru vegir einnig lokaðir vegna óveðurs og þá er Fróðárheiði einnig lokuð.

Þá er ófært á Steingrímsfjarðarheiði, Klettshálsi og á Hálfdán.

Færð og aðstæður á vegum eru annars þessar samkvæmt vef Vegagerðarinnar:

Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er mjög víða á Suðurlandi. Skafrenningur er á fjallvegum. Lyngdalsheiði er lokuð.

Á Vesturlandi er hálka eða snjóþekja á vegum. Flughálka er á Skógarströnd. Lokað er vegna óveðurs á sunnanverðu Snæfellsnesi, Fróðárheiði og á Holtavörðuheiði.

Á Vestfjörðum er skafrenningur og éljagangur á flestum leiðum. Ófært er á Steingrímsfjarðarheiði, Klettshálsi, Kleifaheiði og á Hálfdán. Flughálka er á milli Kleifaheiðar og Brjánslækjar. Þungfært er í Ísafjarðardjúpi og á Þröskuldum.

Á Norðurlandi er snjóþekja eða hálka á vegum og töluverð snjókoma, skafrenningur eða éljagangur. Þæfingsfærð er á Öxnadalsheiði. Ófært er milli Laugarbakka, Hvammstanga og yfir í Vatnsdal, auk þess er vegurinn um Dalsmynni ófær. Flughálka er í Bakkafirði.

Snjóþekja eða hálka er á vegum á Austurlandi en þæfingur er á Fjarðarheiði. Snjóþekja og hálka er með Suðausturströndinni og nokkuð hvasst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×