Viðskipti innlent

Bæjarráð Garðabæjar vill leyfa ÁTVR að opna Vínbúð

Haraldur Guðmundsson skrifar
ÁTVR gleymdi að sækja um leyfi fyrir nýju Vínbúðinni.
ÁTVR gleymdi að sækja um leyfi fyrir nýju Vínbúðinni. Vísir/Eyþór
Bæjarráð Garðabæjar samþykkti í gær að leggja til við bæjarstjórn að ÁTVR fái leyfi í eitt ár til að reka vínbúð í Kauptúni við hlið Costco. Var þá bæjarstjóranum Gunnari Einarssyni falið að ræða við forsvarsmenn ÁTVR um starfsemi sérverslunar í miðbæ Garðabæjar.

Samkvæmt fundargerð bæjarráðsins lagðist skipulagsnefnd Garðabæjar ekki gegn því að vínbúð yrði opnuð í Kauptúni. Fréttablaðið greindi á laugardag frá áhyggjum nefndarmanna af auknu umferðar­álagi vegna fyrirhugaðrar opnunar. Formaður hennar sagði þá að koma ÁTVR í hverfið kallaði á að framkvæmdum við breytingar á gatnakerfinu þar yrði hraðað. Furðaði nefndin sig á því að ÁTVR hefði ekki komið til móts við óskir bæjarins um að búðin yrði í miðbænum.

Upphaflega stóð til að verslunin yrði opnuð í síðustu viku. Bæjarstjórn Garðabæjar taldi aftur á móti að ÁTVR þyrfti að sækja um sérstakt leyfi þar sem fyrra leyfi fyrir Vínbúð í bænum, sem var lokað fyrir þó nokkrum árum, var bundið við verslunar- og þjónustukjarnann Garðatorg. Búast má við að afstaða til umsóknar fyrirtækisins verði tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar síðar í vikunni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×