Lífið

Finnur fyrir því að karlmenn ætlist til að hún sofi hjá þeim því hún er feit

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Ebba samdi einleikinn sjálf með leikstjóra sínum.
Ebba samdi einleikinn sjálf með leikstjóra sínum. Mynd / Úr einkasafni
„Ástæðan fyrir því að ég ákvað að semja einleik var að mér finnst verulega erfitt að komast inn í leikhúsin hérna heima ef maður útskrifast erlendis og ég hugsaði hvað ég gæti gert til þess að koma mér á framfæri og þá kviknaði þessi hugmynd að einleik,“ segir leikkonan Þuríður Elín, oft kölluð Ebba Sig, en hún frumsýnir einleikinn Guðmóðirin á Kaffi Laugalæk annað kvöld.

Einleikinn samdi Ebba sjálf en leikstjóri verksins, Gunnhildur Þorkelsdóttir, tók þátt í hugmyndavinnunni og bætti miklu við stykkið. Handritið deilir persónulegri reynslu og ætti að endurspegla hvernig það er að vera einhleyp kona á Íslandi. Í verkinu kynnast áhorfendur Lóu, 26 ára einhleypri konu, sem gerir fátt annað en að koma sér í vandræði og reyna að halda sársaukanum, sem hún hefur burðast með í mörg ár, niðri. Það hefur hún gert með drykkju, helgarhjásvæfum og kaldhæðni. Stormasamt samband hennar við pabba sinn, systur sína, karlmenn og sjálfa sig er meginefni verksins.



Gunnhildur, leikstjóri sýningarinnar, og Ebba.Mynd / Úr einkasafni
Nokkrar sögurnar ýktar

Það liggur því beinast við að spyrja Ebbu hvort einleikurinn sé byggður á henni sjálfri?

„Þetta er alls ekki ævisaga en sumt er tekið úr mínum reynslubanka. Sögurnar sem hún segir af sér og karlmönnum er að miklu leyti skrifað frá minni reynslu þótt nokkrar séu kannski stundum dálítið ýktar. En mig langaði að sýna þennan veruleika sem einhleypar konur stundum lenda í þegar þær fara heim í „one night stand“ og hvernig er komið fram við þær,“ segir Ebba og bætir við að samband Lóu við fjölskyldumeðlimi sé einnig byggt á persónulegri reynslu.

„Sambandið milli Lóu og systur hennar er einnig að nokkru leyti byggt á mínu sambandi við systur mína, þó að margt sé ekki veruleiki okkar. En systur minni finnst oft erfitt hvað ég get verið hvatvís og óábyrg, þar sem hún er það alls ekki en það er aðallega það sem ég skrifa um af eigin reynslu. Pabbinn í verkinu er ekki pabbi minn, en auðvitað geta feðginasambönd verið stormasöm og stundum finnst manni maður ekki að vera að standa sig í því að vera eins og foreldi manns ætlast til, þannig að það er sumt sem ég hef upplifað sem ég nýti til þess að segja í sögu Lóu. Mér þykir vænt um pabba minn og er það ólíkt sambandi Lóu og pabba hennar.“

Ebba í stykki í leiklistarskóla.Mynd / Úr einkasafni
Svo sem fínt að vera einhleyp

Eins og persónan í verkinu er Ebba einhleyp. Hún segist ekki finna fyrir pressu að eignast maka frá jafnöldrum sínum en hefur upplifað skringilega framkomu frá sumum karlmönnum.

„Mér líður oftast vel að vera einhleyp kona á Íslandi. Ég er ein af fáum vinkonum mínum sem er einhleyp en ég finn aldrei fyrir neinni minnimáttarkennd eða pressu um að eignast kærasta frá jafnöldrum, það er svo sem öðruvísi hvernig sumir eldri fjölskyldumeðlimir taka því. Einnig mér finnst oft framkoma sumra karla í miðbænum gagnvart mér vera furðuleg. Til dæmis finn ég oft fyrir því að karlmenn ætlist til þess að ég sofi hjá þeim vegna þess að ég sé feit og eigi að þakka fyrir það að einhver vilji sofa hjá mér. En að því undanskildu finnst mér svo sem fínt að vera einhleyp,“ segir leikkonan, sem fagnar 27 ára afmæli sínu í dag.

Skrifaði um nauðgun

Ebba útskrifaðist úr Rose Bruford College í Bretlandi árið 2015 en á meðan á náminu stóð fór hún í skiptinám í eina önn til Chicago í Bandaríkjunum. Eftir útskrift ákvað Ebba að dvelja aðeins í London og lék í sýningunni W.O.L.F. (Women of the liberated front) í leikhúsinu London Theatre Workshop. Hún segir að skólinn hafi undirbúið hana vel fyrir að semja og flytja sinn eigin einleik.

„Ég fór í áfanga í leiklistarskólanum mínum sem hét „Performing the self“ þar sem okkur var kennt að nota okkar eigin reynslu við skrif og ég átti einræðu sem ég hafði skrifað í áfanganum sem var um nauðgunina sem ég lenti í árið 2010. Út frá því komu margar þessar sögur sem ég er að segja. Einnig gefur það mér listrænt tækifæri til að spreyta mig í hinum ýmsu karakterum og jafnframt segja sögur sem ég held að séu mikilvægar,“ segir Ebba, en hún vakti talsverða athygli með pistli í Kjarnanum í maí á þessu ári þar sem hún deildi reynslu sinni að verða fyrir nauðgun og hvernig ábyrgð er varpað á þolendur.

Ebba lærði leiklist bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hér er hún í karakter lengst til hægri.Mynd / Úr einkasafni
Þróar sjónvarpsþátt

Einleikurinn Guðmóðirin er sýndur í galleríinu á Kaffi Laugaræk á morgun, 24. nóvember og á laugardag, síðan aftur 1. og 2. desember. Sýningarnar hefjast klukkan 20.30 og hægt að panta miða með því að hafa samband beint við Ebbu á ebbasig@gmail.com. Ebba kennir 4.-7. bekk leiklist sem skyldufag og 8.-10. bekk sem valfag í Ingunnarskóla. Það er það sem tekur við þegar sýningum á einleiknum lýkur. Hins vegar er hún með ýmsar aðrar hugmyndir og verkefni í bígerð.

„Einnig höfum við leikstjórinn, Gunnhildur, verið að þróa sjónvarpsþátt sem heitir Næstum fullorðnar. Við munum halda áfram að vinna í honum og vonandi koma honum sem fyrst í framleiðslu. Einnig er ég með nokkrar hugmyndir að fleiri leiksýningum sem mig langar að fara setja upp og vona ég að þetta verk verði til þess að fleiri dyr opnist.“

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×