Innlent

Enn gríðarlega hvasst í Hamarsfirði en mokstur víða hafinn á vegum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Appelsínugul viðvörun er í gildi á Austfjörðum.
Appelsínugul viðvörun er í gildi á Austfjörðum. Skjáskot/Veðurstofa
Enn er lokað um Víkurskarð, Hófaskarð, Mývatns- og Möðrudalsöræfi, Fagradal og Fjarðarheiði, að því er fram kemur á vef vegagerðarinnar. Þá eru gríðarlegar vindhviður í Hamarsfirði og ófært um hann vegna veðurs. Mokstur er þó víða hafinn á þungfærum vegum.

Veður er víða slæmt á landinu og er enn beðið með mokstur á Austurlandi vegna þess, segir í frétt vegagerðarinnar sem birt var á níunda tímanum í morgun. Þá er lokað á Vopnafjarðarheiði en hvasst er nú með austur- og suðausturströndinni.

Óvissustig og appelsínugul viðvörun á Austurlandi

Á vef Veðurstofu Íslands er athygli vakin á því að viðvaranir vegna stórhríðar og vinds verði í gildi fram eftir degi. Ferðalangar eru hvattir til að kynna sér vel veðurspá og  færð á vegum hjá Vegagerðinni áður en lagt er í hann. Óvissustig er enn í gildi vegna snjóflóða á Austurlandi og appelsínugul viðvörun Veðurstofu gildir á Austfjörðum.

Mokstur er hafinn á Holtavörðuheiði en víða er snjóþekja og hálka á Norðvesturlandi. Þungfært er á Siglufjarðarvegi í Ketilás og ófært þaðan til Siglufjarðar en mokstur á svæðinu er þó hafinn. Þungfært er í Norðurárdal.

Hálka hálkublettir og snjóþekja eru á Vesturlandi og Vestfjörðum.

Þá er mokstur hafinn á Öxnadalsheiði og á Ólafsfjarðarmúla. Þæfingur, snjóþekja og skafrenningur er víða í Eyjafirði. Fyrir austan Akureyri eru vegir víða ófærir og stórhríð, lokað er á Víkurskarði, eins er lokað á Hófaskarði og síðan er lokað yfir Fjöllin frá Mývatni og austur um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×