Innlent

Alvarlegt umferðarslys á Miklubraut við Réttarholtsveg

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Slysið varð á Miklubraut við Réttarholtsveg en lögregla stóð vaktina á brúnni við slysstað.
Slysið varð á Miklubraut við Réttarholtsveg en lögregla stóð vaktina á brúnni við slysstað. Vísir
Alvarlegt umferðarslys varð á Miklubraut við Réttarholtsveg nú á níunda tímanum í morgun. Ökumaður bíls lenti utan í vegriði og kastaðist út úr bifreiðinni. Þetta staðfestir aðstoðaryfirlögreglustjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í samtali við Vísi.

Lokað er fyrir umferð í báðar áttir um Miklubraut móts við Skeiðarvog og Réttarholtsveg um óákveðinn tíma. Þetta gildir um báðar akstursáttir, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Uppfært klukkan 09:37:

Ökumaður virðist hafa misst stjórn á bíl sínum, lent utan í vegriði á Miklubraut og kastast út úr bifreiðinni, segir Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögreglustjóri, í samtali við Vísi. Hann segir enn fremur um að ræða mjög alvarlegt slys.

Uppfært klukkan 11:14:

Búið er að opna fyrir alla umferð á Miklubraut og í kring að nýju. Greiðfært er nú í báðar áttir en lokað var fyrir umferð í nær tvær klukkustundir vegna slyssins.



Frá vettvangi í morgun.Stöð2/Skjáskot
Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×