Bakþankar

Jákvæðni, já takk!

Óttar Guðmundsson skrifar
Með aukinni færni þjóðarinnar á samfélagsmiðlum hefur neikvæðni aukist til muna. Menn hafa allt á hornum sér í kommentakerfunum og reglulega „logar netið“ af sameiginlegri hneykslun og reiði. Margir hafa auglýst eftir aukinni jákvæðni og bjartsýni þjóðarinnar. Stöðugt er boðið upp á námskeið til að efla jákvæða hugsun og sjálfshjálparbækur fyrir fólk í hamingjuleit njóta vinsælda. Þetta virðist þó ekki skila neinum árangri.

Það var mér mikið gleðiefni hvernig flokkarnir tóku kosningaúrslitunum um nýliðna helgi. Viðbrögð þeirra allra einkenndust af bjartsýni og jákvæðni. Allir stóðu uppi sem sigurvegarar. Björt framtíð sem þurrkaðist út en vann stóran siðferðislegan sigur. Framsókn og Sjálfstæðis hlutu einhverjar verstu kosningar í sögu flokkana en unnu frækna varnarsigra. Samfylking fagnaði glæstum sigri þótt óralangt væri í gömul kosningaúrslit. VG missti niður forskot og fyrirheit um mikla fylgisaukningu en fagnaði samt sigri. Sigmundur D. og Flokkur fólksins töldu sig með réttu raunverulega sigurvegara. Enginn kenndi neinum um neitt enda unnu allir.

Þetta boðar gott fyrir framtíðina. Nú hætta menn öllu kvarti og kveini og snúa vörn í sókn. Enginn bíður lengur lægri hlut í neinum slag heldur stendur uppi sem sigurvegari sama hver útkoman í raun er. Nú hættir netið að fara hliðina yfir einhverjum klaufalegum ummælum heldur túlkar allt á besta veg af jákvæðni og mennsku. Menn hneykslast ekki lengur fyrir hönd sjálfra sín og annarra heldur láta sér fátt um finnast þótt einhver bulli eitthvað sem hægt er að misskilja. Bjartir tímar eru í vændum í boði okkar skynsömu pólitísku leiðtoga.

 

Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins.






×