Erlent

Buna forsetahundsins truflaði ráðherrafund

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Nemo, hundtryggur aðstoðarmaður Emmanuel Macron.
Nemo, hundtryggur aðstoðarmaður Emmanuel Macron. Vísir/Getty
Hundur Frakklandsforsetans Emmanuel Macron hefur stolið fyrirsögnunum í Evrópu síðastliðinn sólarhring eftir að hann lét allt flakka á fundi í forsetahöllinni.

Franska sjónvarpsstöðin TF1 myndaði forsetann á fundi með ráðherrum þar sem þeir ræddu á alvarlegum nótum um mikilvægi fjárfestinga í borgum landsins.

Nemo, sem er blanda af labrador og griffon, lét sér fátt um fundinn finnast, gerði sér lítið fyrir og meig í arininn skammt frá fundarstaðnum.

Í myndbandi TF1, sem sjá má hér að neðan, sést hvernig ráðherrana rekur í rogastans og bíða þangað til að hundurinn hefur lokið sér af. „Ég var einmitt að velta fyrir mér hvaða hljóð þetta væri,“ má heyra Brune Poirson, aðstoðar-umhverfisráðherra, segja en hann hafði orðið þegar Nemo byrjaði að létta á sér.

„Kemur þetta oft fyrir,“ spurði Julien Denormandie við mikla kátínu forsetans sem bætti við, hlæjandi: „Þið hafið dregið fram alveg nýja hlið á hundinum mínum.“ Ekki er vitað hver þreif upp eftir hundinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×