Enski boltinn

Giggs vill taka við Everton eða Leicester

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Giggs bíður enn eftir sínu fyrsta tækifæri sem knattspyrnustjóri.
Giggs bíður enn eftir sínu fyrsta tækifæri sem knattspyrnustjóri. vísir/getty
Ryan Giggs segist hafa áhuga á að taka við stjórastólnum hjá Everton eða Leicester.

Everton rak fyrr í dag Ronald Koeman úr starfi eftir að 2-5 tap gegn Arsenal í gær skilaði liðinu í fallsæti í ensku úrvalsdeildinni.

Craig Shakespeare var látinn taka pokann sinn hjá Leicester í síðustu viku.

Giggs er sérfræðingur hjá Sky Sports, jafnframt því að vera einn af eigendum neðandeildar liðsins Salford City.

Hann var spilandi þjálfari í þjálfarateymi David Moyes hjá Manchester United tímabilið 2013/14 og tók við liðinu tímabundið eftir að Moyes var rekinn frá félaginu.

Giggs varð svo aðstoðarþjálfari Louis van Gaal hjá félaginu, en hætti eftir að Jose Mourinho tók við stjórninni í júlí 2016.

„Ég hef alltaf sagt að ég væri opinn fyrir því að þjálfa félög sem hafa sömu markmið og ég. Ég vil bæta félagið og bæta leikmennina, hafa gaman af því að vinna og að leikmennirnir hafi gaman af því að spila,“ sagði Giggs við Sky Sports.

„Það eru félög í úrvalsdeildinni sem væru góð fyrir mig, en líka í 1. og 2. deild. Þetta snýst meira um hugmydafræði heldur en stöðu félagsins.“

Margir stuðningsmenn Everton tóku til samfélagsmiðla og lýstu yfir skoðun sinni á þessum fréttum, og má segja að heilt yfir sé lítill áhugi fyrir því að fá Giggs til Everton.














Tengdar fréttir

Giggs: Of margir útlenskir stjórar

Ryan Giggs, fyrrum leikmaður Man. Utd, er á því að það séu of margir útlenskir knattspyrnustjórar í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×