Fótbolti

Einn af aðalbófum FIFA: „Besti dagur lífs míns þegar að Bandaríkin komust ekki á HM“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jack Warner er glæpamaður.
Jack Warner er glæpamaður. vísir/getty
Jack Warner, fyrrverandi forseti knattspyrnusambands Mið-Ameríku og kyrrahafsins, CONCACAF, gat ekki leynt gleði sinni þegar að Bandaríkin klikkuðu á því að komast á HM í fyrsta sinn í tæpa þrjá áratugi.

Bandaríska liðið tapaði fyrir Tríndad og Tóbago sem hafði að engu að keppa í lokaumferðinni og verður ekki með í Rússlandi á næsta ári. Warner er frá Trínidad og Tóbagó en það var ekki bara sigurinn sjálfur sem gladdi hann.

Jack Warner er einn af mestu glæpamönnum í sögu FIFA og hefur margsinnis verið ásakaður og dæmdur fyrir mútur og skandala. Hann var einn af þeim ráðamönnum sem voru handteknir þegar að bandarísk dómsmálayfirvöld opinberuðu risastórt hneyksli innan Alþjóðaknattspyrnusambandsins.

„Ég gæti ekki verið glaðari. Þetta er besti dagur lífs míns. Þessi sigur gæti ekki mögulega glatt mig meira,“ sagði Warner í útvarpsviðtali í Trínidad en ESPN greinir frá.

Warner hefur sakað Bandaríkin um að breyta CONCACAF í algjöra martröð en hann hefur sjaldan litið inn á við og gengist við fjölmörgum glæpum sínum.

„Bandaríkin notuðu stjórnvöld til að tæta FIFA í sundur á skelfilegan máta og í gærkvöldi kom Trínidad og Tóbagó Bandaríkjunum á hnén. Fyrir mér eru Bandaríkin bara grín núna,“ sagði Jack Warner.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×