Fótbolti

Miðasalan á leiki Íslands á HM í Rússlandi hefst 5. desember

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsfólk íslensku landsliðanna hafa fjölmennt til Frakklands og Hollands síðustu sumur.
Stuðningsfólk íslensku landsliðanna hafa fjölmennt til Frakklands og Hollands síðustu sumur. Vísir/Vilhelm
Fyrirspurnum hefur rignt inn á skrifstofu Knattspyrnusambands Íslands í þessari viku í tengslum við komandi heimsmeistaramót í Rússlandi þar sem íslenska landsliðið verður meðal þátttakenda.

Íslenska landsliðið tryggði sig inn á HM á mánudagskvöldið og það eru margir áhugsamir um að fylgja liðinu á þessari sögulegu för til Rússlands næsta sumar.

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, er líka þegar komið í samstarf með KSÍ varðandi að skipuleggja miðamálum í tengslum við leiki íslenska liðinu á mótinu.

KSÍ segir frá því í frétt á heimasíðu sinni að mikið hafi verið spurt um miða á HM í Rússlandi undanfarna daga.

„Starfsmenn KSÍ áttu fund með miðasöludeild FIFA í morgun og er nú unnið úr þeim upplýsingum sem fengust á þeim fundi,“ segir í fréttinni.

Þar kemur líka fram að aðalhluti miðasölu til stuðningsmanna Íslands mun fara fram á miðasöluvef FIFA og hefst sú miðasala 5. desember og mun standa til 31. janúar.

Miðasalan mun því ekki hefjast fyrr en eftir 54 daga og jafnframt fjórum dögum eftir að það kemur í ljós hverjum íslenska liðið mætir á HM í Rússlandi og hvar og á hvaða dögum liðið muni spila leikina sína í riðlinum.

„Nánari upplýsingar um fjölda miða, miðaverð og kaupferlið eru í vinnslu og verða birtar í heild á næstu vikum,“ segir ennfremur í fréttinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×