Innlent

Birti mynd af undirskrift Jóns Gnarr en sá svo eftir því

Kjartan Kjartansson skrifar
Guðlaug Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar.
Guðlaug Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar.
Guðlaug Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, birti mynd af undirskrift Jóns Gnarr við meðmælendalista flokksins á samfélagsmiðlum í morgun. Skömmu síðar eyddi hún færslunni og segist dauðsjá eftir henni. Jón gekk í Samfylkinguna í gær.

Í færslu á Instagram og Facebook í morgun birti Guðlaug mynd sem sýnir undirskrift Jóns og heimilisfang á meðmælendalista fyrir Bjarta framtíð. Þar stingur hún upp á að bjóða stuðningsyfirlýsinguna upp til að styrkja kosningasjóð flokksins.

„Væri pínu poetic að greiðslur Samfó til Jóns gætu skapað plús í kladda okkar,“ skrifaði Guðlaug.

Skömmu síðar eyddi Guðlaug færslunni en ekki áður en skjáskot höfðu náðst af henni.

„Það var illa gert af mér og ég dauðsé eftir því. Ég var ekki almennilega vöknuð. Ég verð eiginlega bara að segja það. Ég bið hann innilega afsökunar og alla aðra sem brá við þetta,“ segir Guðlaug í samtali við Vísi.

Hún segir að hennar fólk hafi hnippt í sig strax og sagt henni að svona gerði maður ekki.

„Ég geri mér alveg grein fyrir því,“ segir hún.

Færslunni eyddi Guðlaug.Skjáskot/Facebook
Óskar Jóni og Samfylkingunni alls góðs

Jón ávarpaði fund Samfylkingarinnar í gær. Í viðtali við Stöð 2 í gærkvöldi sagðist hann ekki útiloka endurkomu í pólitík síðar meir undir merkjum Samfylkingarinnar. Hann verður þó ekki á framboðslista að þessu sinni.

Í ummælum við upphaflegu færsluna staðfesti Guðlaug að hún hefði tekið þátt í að ræða við Jón fyrir hönd Bjartrar framtíðar um síðustu helgi, eftir því sem hún sagðist muna.

„Hann lýsti eindregnum stuðningi við BF og sjálfan sig reiðubúinn til að liðsinna okkur á hvern þann hátt sem honum væri fært. Ég var snögg að nappa hjá honum undirskrift á meðmælendalista með BF, sem ég ætti kannski frekar að ramma inn en skila til kjörstjórnar. Á aðeins eftir að skilja hvernig uppistandið á fundi Samfó rímar við hjartanleg stuðningsloforð, en við skiljum auðvitað ekki alltaf alla brandara Jóns alveg strax. Namaste,“ skrifaði Guðlaug.

Í samtali við Vísi segir Guðlaug að Jón hafi mætt á stjórnarfund hjá Bjartri framtíð eftir stjórnarslitin. Hún viti ekki hvers vegna honum snerist hugur og ákvað frekar að ganga til liðs við Samfylkinguna. 

„Ég er mikill aðdáandi Jóns. Hann hefur gert mjög margt gott. Ég hlakka til að sjá hans innlegg í pólitíkina núna. Ég óska Samfylkingunni og honum alls góðs. Ég veit að hann er einlægur í því sem hann er að gera og langar að hafa góð áhrif. Við erum öll í því til að breyta samfélaginu og hafa góð áhrif og breyta pólitík. Hann er einn af þeim sem er í því. Við getum vonandi gert það saman,“ segir Guðlaug.

Veit ekki um neinar greiðslur til Jóns

Björt Ólafsdóttir, starfandi umhverfisráðherra úr röðum Bjartrar framtíðar, sagði við Vísi í gær að flokkurinn hafi ekki getað borgað Jóni. Sett hún skipti hans yfir í Samfylkinguna í samhengi við að hann hefði verið að leita sér að vinnu. Í færslunni sem Guðlaug eyddi talaði hún einnig um greiðslur Samfylkingarinnar til Jóns.

Þrátt fyrir það segist Guðlaug nú ekki hafa neina hugmynd um hvort að Jón fái borgað fyrir þátttöku sína í starfi Samfylkingarinnar.

„Ég veit ekkert um það. Ég hef ekki hugmynd um neinar greiðslur,“ segir Guðlaug.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×