Skoðun

Subbuskapur?

Úrsúla Jünemann skrifar
Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi D- listans, fer mikinn í grein sinni þann 6. september í Fréttablaðinu. Þar vill hún meina að í Reykjavík ríki subbu­skapur og borginni sé illa sinnt. Auðvitað mætti margt bæta í viðhaldi og skipulagi. En þetta er ekki svo einfalt.

Reykjavík hefur undanfarið sopið seyðið af sífjölgandi ferðamannastraumi. Með þessu fylgir gullgrafaraæði. Menn vilja græða sem mest á stuttum tíma. Gömul hús víkja fyrir hótelum og gistihúsum – og oft á óhentugum stöðum. Því miður hefur ríkisstjórnin ekki haft hemil á því að fjársterk íbúðaleigufélög gátu keypt megnið af fasteignum í miðbænum. Airbnb blómstrar eins og aldrei fyrr þannig að framboð á íbúðarhúsnæði miðsvæðis minnkar stöðugt.

Þegar hlutfall þeirra sem búa allan ársins hring í miðbænum minnkar svo ört er ekki skrýtið að bæjarbragurinn verði öðruvísi. Margir koma í miðbæinn þar sem fjörið er og vilja skemmta sér. Því fylgir því miður subbuskapur og er miður fyrir fólk sem þarf að vakna snemma næsta dag.

Önnur sveitarfélög eins og Garðabær, Seltjarnarnes og Mosfellsbær eiga ekki við þann vanda að stríða. Þau eru eiginlega eins konar svefnbæir. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft tögl og hagldir í langan tíma þarna. Þar býr að mestu leyti efnað fólk sem kann vel við sig í sínu húsnæði og við sitt kjör. Framboð á félagslegum íbúðum eða litlu húsnæði á viðráðanlegum kjörum er lítið enda efnalítið fólk frekar óvelkomið. Í Reykjavík er hins vegar mesta framboð á húsnæði til þeirra sem minnst mega sín, þó að það sé alls ekki nóg.

Ef menn ætla að kippa sér upp við það að grasið sé ekki slegið nógu oft eða að sumstaðar birtist óæskilegur gróður (illgresi er ljótt orð) þá mætti nú snúa sér að öðru og mikilvægara.

Í Reykjavík þar sem hlutfallslega miklu fleiri búa sem eiga erfitt er ekki skrítið að viðhorfskannanir verði frekar neikvæðar. Þetta veit hún Áslaug auðvitað. En stutt er í næstu sveitarstjórnarkosningar.

 

Höfundur er kennari á eftirlaunum.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×