Sport

Áfrýjun Gunnars hafnað og úrslitin standa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hér má sjá Ponzinibbio með puttana á kafi í báðum augum Gunnars.
Hér má sjá Ponzinibbio með puttana á kafi í báðum augum Gunnars. mynd/jerry mccarthy ko! media
Úrslitunum í bardaga Gunnars Nelson og Santiago Ponzinibbio verður ekki breytt en UFC tók áfrýjun Gunnars ekki til greina. Gunnar og hans teymi kærðu niðurstöðu bardagans vegna augnapots Argentínumannsins.

Ponzinibbio rotaði Gunnar í fyrstu lotu bardagans sem fór fram í Glasgow þann 16. júlí í sumar. Fljótlega eftir bardagann var niðurstaðan kærð en talsverðan tíma tók að fá niðurstöðu í málið.

Paradigm Sports Managament umboðsskrifstofan sem er með Gunnar sem skjólstæðing greindi frá þessu á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi.

Haraldur Nelson, faðir Gunnars og framkvæmdastjóri Mjölnis, sagði í samtali við vef MMAfrétta að niðurstaðan komi honum ekki á óvart. Hann segir að UFC sé með þessu að senda viss skilaboð.

„Ef þú kemst upp með það í búrinu þá er ekkert gert í málinu. Mjög dapurlegt,“ sagði hann.

Gunnar hefur þegar greint frá því að hann muni ekki berjast frekar á árinu þar sem að hann ætlar að gefa sér tíma til að hvíla höfuðið eftir áverkana sem hann hlaut í bardaganum í Glasgow.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×