Viðskipti innlent

Lindex opnar verslun á Akranesi

Atli Ísleifsson skrifar
Albert Þór Magnússon og Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir, umboðsaðildar Lindex á Íslandi, við opnun verslunar í Reykjanesbæ.
Albert Þór Magnússon og Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir, umboðsaðildar Lindex á Íslandi, við opnun verslunar í Reykjanesbæ. Lindex á Íslandi
Lindex hyggst opna verslun á Akranesi laugardaginn 4. nóvember. Frá þessu segir í tilkynningu frá fyrirtækinu, en þetta verður sjöunda verslun Lindex á landinu.

Verslunin er um 360 fermetrar að stærð og staðsett í miðbæ Akraness, að Dalbraut 1, milli verslunar Eymundssonar og Krónunnar. Þar var síðast verslun árið 2008, þegar tölvuverslun BT var þar til húsa.

Albert Þór Magnússon, umboðsaðili Lindex á Íslandi, kveðst óskaplega spenntur fyrir opnuninni. „Verslun okkar á Suðurnesjum hefur gengið vonum framar og hefur hvatt okkur áfram til að taka næstu skref og er því sérlega ánægjulegt að geta kynnt þetta í dag.“

Í tilkynningunni segir að undirbúningur fyrir opnun Lindex á Akranesi sé þegar hafinn en útlit verslunarinnar verður eftir svokallaðri „clean concept“ hönnun Lindex. Innréttingahönnunin byggi á björtu yfirbragði þar sem hvítur er áberandi litur í bland við svart og viðartóna sem gefi útliti verslunarinnar skandinavískt yfirbragð. 

Lindex rekur nú fimm verslanir á Íslandi – í Smáralind, Kringlunni, á Glerártorgi á Akureyri, Laugavegi 7 og í Krossmóum í Reykjanesbæ. Auk þeirra er rekin sérstök netverslun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×