Viðskipti innlent

Níu sagt upp hjá Virðingu

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Hannes Frímann Hrólfsson segir uppsagnirnar óumflýjanlegar.
Hannes Frímann Hrólfsson segir uppsagnirnar óumflýjanlegar.
Níu starfsmönnum hefur verið sagt upp hjá Virðingu og Rekstrarfélagi Virðingar. Samkvæmt fréttatilkynningu frá Virðingu eru starfsmannabreytingarnar gerðar í tengslum við fyrirhugaðan samruna félagsins við Kviku banka. Eins og áður hefur komið fram hafa Samkeppnisyfirlitið og Fjármálaeftirlitið samþykkt kaup Kviku á öllu hlutafé Virðingar.

„Starfsmannabreytingar eru því miður óumflýjanlegar í tengslum við samruna félaganna. Mér þykir leitt að kveðja öflugt og reynslumikið fólk sem hefur unnið fyrir Virðingu af eljusemi á undanförnum árum og vil ég þakka þeim fyrir vel unnin störf hjá félaginu,“ segir Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri virðingar.

Í ágúst síðastliðnum var tilkynnt að átta manns hafi verið sagt upp hjá Kviku vegna fyrirhugaðs samruna. Markaðs- og mannauðssvið Kviku var lagt niður í þeirri mynd sem það hafði verið og verkerkefni sviðsins færð til. Framkvæmdastjóri fyrirtækjarráðgjafar bankans lét þá einnig af störfum.

„Það er mjög leitt að kveðja gott og dugmikið fólk sem hefur unnið fyrir bankann af samviskusemi á undanförnum árum en því miður eru aðgerðir sem þessar óumflýjanlegur hluti af þeim breytingum sem fram undan eru,“ segir Ármann Þorvaldsson sagði forstjóri Kviku þegar tilkynnt var um uppsagnirnar í ágúst.

Greint var frá því í lok júní að Kvika banki hefði keypt allt hlutafé í verðbréfafyrirtækinu Virðingu. Kaupverðið væri 2.560 milljónir króna og yrði greitt með reiðufé. Samkeppniseftirlitið birti svo ákvörðun sína um að samþykkja samrunan þann 28.ágúst. Félögin verða sameinuð undir nafni Kviku.


Tengdar fréttir

Átta missa vinnuna hjá Kviku

Því miður eru aðgerðir sem þessar óumflýjanlegur hluti af þeim breytingum sem fram undan eru, segir Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×