Íslenski boltinn

Pepsi-mörkin: 95 kílóa þurs sem hrynur niður við minnsta tilfelli og reynir að fótbrjóta menn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aleksandar Trninic, miðjumaður KA, var sjálfum sér til skammar í markalausa jafnteflinu við KR í Vesturbænum í gær.

Trninic byrjaði á því negla KR-inginn Andre Bjerregaard niður með fáránlegri tæklingu sem hann fékk gult spjald fyrir. Bjerregaard þurfti að fara af velli vegna meiðsla. Þetta er langt frá því að vera fyrsta grófa tækling Trninic í sumar.

„Það er einhvern veginn þannig með þennan ágæta mann að maður hefur það á tilfinningunni að hver leikur sem líður án þess að hann fái rautt spjald sé illa dæmdur leikur,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson um Trninic í Pepsi-mörkunum í gær.

„Hann er ekkert eðlilega grófur. Þetta var hrottaleg tækling og við höfum séð alltof margar svona tæklingar þar sem boltinn er algjört aukaatriði og allt snýst um að fara í manninn. Annað hvort það eða maðurinn er yfirmáta klaufskur.“

Hjörvar Hafliðason tók í sama streng.

„Hann er bara að reyna að eyðileggja feril leikmanna með þessum tæklingum sínum,“ sagði Hjörvar.

Trninic er ekki bara grófur heldur gerir hann sig líka oftsinnis sekan um leikaraskap.

„Það er sorglegt að þurfa eyða tíma í þessum þætti að fjalla um þennan mann. Þetta er ótrúlegt. Þarna ertu með 95 kílóa þurs sem hrynur niður við minnsta tilfelli og reynir síðan að fótbrjóta menn,“ sagði Óskar Hrafn.

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Pálmi Rafn: Ótrúleg ákvörðun að taka

Fyrirliði KR, Pálmi Rafn Pálmason, var að vonum gífurlega svekktur í lok leiks enda var mark dæmt af liði hans á lokamínútunum í markalausu jafntefli gegn KA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×