Íslenski boltinn

Stefán lætur af störfum eftir tímabilið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stefán Gíslason hefur gert fína hluti með Hauka í sumar.
Stefán Gíslason hefur gert fína hluti með Hauka í sumar. vísir/andri marinó
Stefán Gíslason lætur af störfum sem þjálfari karlaliðs Hauka í fótbolta eftir tímabilið.

Stefán óskaði sjálfur eftir því að hætta með Hauka að því er fram kemur á Fótbolta.net.

„Þetta var allt gert í mjög góðu. Hann óskaði sjálfur eftir þessu þar sem það er mikið að gera hjá honum. Ef hann hefði ekki beðið um þetta sjálfur þá stóð ekki annað til en að hann yrði áfram,“ sagði Ágúst Sindri Karlsson, formaður knattspyrnudeildar Hauka, við Fótbolta.net.

Stefán, sem lék lengi sem atvinnumaður, tók við Haukum af Luka Kostic í vetur. Haukar sitja í 6. sæti Inkasso-deildarinnar þegar ein umferð er eftir.

Haukar fóru rólega af stað en fengu svo 17 af stig af 21 mögulegu í sjö leikjum um mitt mót og gerðu sig gildandi í toppbaráttunni.

Það hefur hins vegar hallað undan fæti að undanförnu og Haukar hafa tapað síðustu tveimur leikjum sínum 6-0.

Haukar mæta Selfossi á útivelli í lokaumferð Inkasso-deildarinnar á laugardaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×