Innlent

Nokkur ágreiningur um hvaða þingmál verði kláruð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, að loknum fundinum í dag.
Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, að loknum fundinum í dag. vísir/anton brink
Fundi Unnar Brá Konráðsdóttur, forseta Alþingis, með formönnum þeirra flokka sem sæti eiga á Alþingi lauk núna á þriðja tímanum en hann hófst klukkan 12:30.

Að fundi loknum ræddi Unnur við blaðamenn og sagði hún að fundurinn hefði gengið vel. Þó væri nokkur ágreiningur um það hvaða mál verði kláruð áður en þingi verður slitið og gengið til Alþingiskosninga þann 28. október næstkomandi.

„Menn reifuðu auðvitað sín sjónarmið um hvaða mál það væru helst sem þeir sæu fyrir sér að þyrfti að ræða og hvort að hægt væri að koma þeim í einhvern farveg. Niðurstaðan af fundinum er að það eru nokkur mál sem eru í skoðun og síðan ætlum við að hittast aftur á formannafundi á miðvikudaginn og reyna að tala okkur inn að niðurstöðu,“ segir Unnur Brá í samtali við Vísi.

Hún segir ekki alveg liggja fyrir í hvaða farveg þau mál fara sem eru til skoðunar þar sem mál eins og NPA – notendastýrða persónulega aðstoð – þyrfti að lögfesta fyrir áramót. Unnur segir að til að mynda sé til skoðunar að koma því máli í þann örugga farveg að tryggja að nýtt þing lögfesti NPA. Þá eru mögulegar breytingar á útlendingalögum einnig til skoðunar.

Aðspurð hvort mikill ágreiningur hafi verið á fundinum segir Unnur Brá:

„Það voru auðvitað skiptar skoðanir og við ræddum það hreinskilnislega en við ákváðum að halda áfram að tala saman og hittast aftur á miðvikudaginn.“

Það hvenær þingi verður slitið fer algjörlega eftir því að hvaða niðurstöðu formenn flokkanna komast ásamt forseta þingsins en í fyrra var því slitið um tveimur vikum fyrir kosningar.

Klukkan 15:30 í dag mun Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, lesa upp tilkynningu um þingrof á þingfundi. Ekki er annað á dagskrá fundarins.

Fréttin hefur verið uppfærð með ummælum Unnar Brá.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×