Innlent

Framsókn brettir upp ermar eftir vel heppnaðan kosningafund

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sigurður Ingi segir nýjustu mælingar á fylgi þingflokkanna gerðar í miklu tilfinningaumróti.
Sigurður Ingi segir nýjustu mælingar á fylgi þingflokkanna gerðar í miklu tilfinningaumróti. Vísir/Ernir
Opinn kosningafundur Framsóknar, sem haldinn var í Reykjavík fór vel fram að sögn Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins. Hann segir flokkinn tilbúinn í kosningabaráttu en vonast til að sjá fleiri atkvæði upp úr kjörkössum þann 28. október en nýjustu kannanir spá fyrir um.

„Það var haldinn fundur hérna í Reykjavík og þingmaður okkar, Lilja Alfreðsdóttir, stóð fyrir honum. Þetta var mjög fínn fundur og góð mæting. Það var jákvæð og mikil stemning og menn tilbúnir að bretta upp ermar fyrir þessar kosningar,“ segir Sigurður Ingi í samtali við Vísi.

Vonar að Framsókn fái hlutdeild í breytingunum

Hann segist vonast til þess að niðurstöður nýrrar könnunar Fréttablaðsins um fylgi þingflokkanna verði hliðhollari Framsókn á kjördegi þann 28. október næstkomandi.

„Ég hefði gjarnan viljað sjá minn flokk fá hlutdeild í þeim breytingum sem eru nú yfirstandandi en þetta eru svosem mælingar sem eru gerðar í miklu tilfinningaumróti, þegar svona breytingar verða,“ segir Sigurður Ingi.

„Ég vona sannarlega að við fáum meira upp úr kössunum þegar talið verður upp úr þeim.“

Knappur tími til stefnu

Kjördæmissambönd flokksins munu svo ákveða hvert fyrir sig hvernig velja eigi á lista flokksins fyrir komandi kosningar. Það fyrirkomulag ræðst á næstu dögum að sögn Sigurðar Inga, líkt og fyrirhugað er hjá Samfylkingunni og Vinstri grænum sem einnig héldu opna flokksfundi í gærkvöldi.

„Það er nefnilega knappur tími og menn þurfa virkilega að bretta upp ermar og setja allt í gang.“


Tengdar fréttir

Þing rofið 28. október og gengið til kosninga

Guðni Th. Jóhannesso, forseti Íslands, féllst í dag á tillögu Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra, um að þing verði rofið og gengið til kosninga þann 28. október næstkomandi.

Ætla ekki að láta nýjustu könnunina rætast

Samkvæmt nýrri könnun Fréttablaðsins fengi Samfylkingin þrjá menn kjörna á þing en baráttuhugur var í mönnum á óvenju fjölsóttum fundi flokksins í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×