Innlent

Samþykkt að fjölga borgarfulltrúum í 23

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Borgarstjórn Reykjavíkur er skipuð 15 borgarfulltrúum, sem er undir lögbundnu lágmarki.
Borgarstjórn Reykjavíkur er skipuð 15 borgarfulltrúum, sem er undir lögbundnu lágmarki. Vísir/Ernir
Á borgarstjórnarfundi í dag samþykktu borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina tillögu sem kveður á um að borgarfulltrúum verði fjölgað í 23 í næstu kosningum. Það er lágmarksfjöldi fulltrúa sem mælt er fyrir um í sveitastjórnarlögum.

Í sveitarstjórnarlögum er kveðið á um fjölda fulltrúa í sveitarstjórn. Þar kemur fram að í sveitarfélögum þar sem íbúar eru 100.000 eða fleiri skal fjöldi fulltrúa vera 23-31. Samkvæmt gildandi samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar er borgarstjórn Reykjavíkur skipuð 15 borgarfulltrúum, sem er undir lögbundnu lágmarki.

Í tillögu forsætisnefndar er miðað við að halda kostnaði sem hlýst af fjölgun borgarfulltrúa í lágmarki með því að manna fastanefndir borgarinnar eingöngu borgarfulltrúum og fyrstu varaborgarfulltrúum, sem og að stilla þóknanir af til samræmis við að vinnuálag dreifist á fleiri fulltrúa í fullu starfi.

Vilja veita borgarstjórn sjálfdæmi um hvort fjölga eigi borgarfulltrúum

Á sama fundi flutti Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, tillögu með áskorun á Alþingi um að veita borgarstjórn sjálfdæmi um hvort fjölga eigi borgarfulltrúum við næstu kosningar eða ekki. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa gagnrýnt harðlega að fulltrúum verði fjölgað úr 15 í 23.

Í fréttatilkynningu frá Kjartani segir hann að þar sem um sé að ræða útþenslu kerfisins þurfi það ekki að koma á óvart að vinstri flokkarnir líti til fjölgunar borgarfulltrúa með sérstakri velþóknun. „Þeir telja slíka fjölgun og kostnaðaraukningu í yfirstjórn vera af hinu góða á sama tíma og ekki tekst að manna stöður lögbundinnar grunnþjónustu í þágu barna og unglinga,” segir Kjartan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×