Fastir pennar

Er hægt að sigra fasisma og hafa gaman í leiðinni?

Bergur Ebbi skrifar
Einu sinni var kaldhæðni sjaldgæft stílbragð. Þegar Oscar Wilde, sem virðist hafa verið frekar kaldhæðinn náungi, var uppi, gat kaldhæðni verið virkilega beitt. Þetta var á Viktoríutímanum. Þegar það var nánast hættulegt að vera kaldhæðinn opinberlega. Enda var Oscar Wilde settur í fangelsi fyrir „sódómíseringu“, hvað í fjandanum sem það er. Líklegast var hann settur í fangelsi fyrir einmitt það viðhorf: að hæðast að heimsku lagabókstafa sem fyrirskipuðu um kynferðismálefni fólks.

Frank Zappa, sem einnig var kaldhæðnispostuli sinnar kynslóðar, var einnig settur í fangelsi. Hann þurfti að vísu bara að dúsa í tíu daga, fyrir að hafa tekið sviðsett samfarahljóð upp á segulband. Þetta var í upphafi ferils hans. Allt frá þeim tíma talaði hann í miklum hæðnistón um stjórnvöld og ýmis boð og bönn. Frank Zappa var kaldhæðinn. Auðvitað var hann það. Hann kom inn í músíkbransann, neflangur og sveittur af ítalsk-arabískum ættum, á sama tíma og söngvarar í Ameríku voru ljóshærðir og bláeygir og sungu um mömmu sína. Hann var í stríði við alla. Plötuútgefendur, lögregluna og pabbana og mömmurnar. Frank Zappa var kaldhæðinn þegar fáir aðrir voru kaldhæðnir. Flestir voru alvarlegir á þessum tíma. Prestar voru alvarlegir. Lögreglan var ekki með fyndinn Instagram reikning. Forsetinn var alvarlegur.

En nú erum við með forseta sem er kaldhæðinn. Forsetinn okkar vill ekki ananas á pitsur. Hann lét það út úr sér og heimurinn nötraði. Eða hvað? Nötraði hann í alvöru? Nei. Það var líka kaldhæðni. Allir skildu kaldhæðnina. Nema kannski einn gæi í Kanada (sem á víst að hafa fundið upp að hafa ananas á pitsur) en hann varð brjálaður og er víst dáinn núna (sem kemur reyndar málinu ekki við). En líklega var hann ekkert brjálaður. Það var líka kaldhæðni hjá honum. En hér er allt sagt í einlægni, þið getið farið yfir sérhverja hugsun hér orð fyrir orð og vegið það og metið. Punkturinn er sá að í dag er fólk í valdastétt einnig kaldhæðið.

Í Bandaríkjunum grasserar nú fasismi. Það eru engar ýkjur. Í skjóli popúlisma leyfist ofbeldisfullum hópum að hafa uppi afturhaldssöm sjónarmið. Stjórnvöld eru í ríkum mæli farin að fórna hagsmunum minnihlutahópa, tala niður kvenréttindi, vinna fyrir hagsmunum einangrunar og er sú þróun leidd áfram af sjálfum forsetanum. En það er ekki eins og Vesturlandabúar hafi tekið þessu þegjandi. Forseti Bandaríkjanna hefur verið vélbyssudritaður með kaldhæðnum athugasemdum alveg frá því að hann ákvað að gefa kost á sér í kjör forseta fyrir rúmum tveimur árum síðan. Hann hefur verið sagður þumbaralegur, með asnalegt hár, belgsíður, rassbreiður, typpskammur, með asnalegt nafn, nef og ásjónu. Margir hafa líka bent á kaldhæðnislegan hátt á stærra samhengið. Að hér sé Walmart- og byssuóða álfan að fá að finna á eigin skinni það sem hún sannarlega hefur látið yfir aðrar þjóðir ganga. Við þetta er ekkert að athuga, annað en að þetta virðist ekki vera að virka.

Sjáið til. Forseti Bandaríkjanna er ekki viktoríanskur kerfiskall sem er afhjúpaður á snilldarlegan hátt með kaldhæðni. Hann er sjálfur kaldhæðinn og er læs á þann leik rétt eins og hver annar. Hann meinar ekki allt sem hann segir, stundum er merkingin þveröfug við það sem orðin ættu að þýða, sé einhver merking. Hann talar fjálglega og af kæruleysi um alvarleg málefni í von um að kreista fram ódýra hlátra. Og stundum tekst það jafnvel. Ætli kaldhæðnis-stig Bandaríkjaforseta sé ekki álíka mikið og hjá venjulegu fólki þegar það tjáir skoðanir sínar á netinu.

Og hér kem ég loksins að lokapunktinum. Ég hef ekkert á móti kaldhæðni. Í gegnum tíðina hefur kaldhæðni verið kraftmikið stílbragð og fengið fólk til að hugsa. Og kaldhæðni getur líka fengið mann til að hlæja. En í sérhverju stríði þarf maður að velja vopn sín. Og kaldhæðni bítur ekki á nútíma fasisma. Ekki ögn. Kaldhæðni bítur ekki á fasisma Vesturlanda því kaldhæðni er ekki lengur einkavopn intellígensíunnar í stríði við spillt stjórnvöld. Kaldhæðni er allra. Allir nota og skilja kaldhæðni. Líka óvinurinn. En hvernig verður þá fasismi kveðinn niður?

Fasismi verður kveðinn niður með aga, hjartahlýju, lögfræðilegri kænsku og eftir atvikum persónulegum fórnum. Eitt af því fyrsta sem við þurfum að fórna eru þau þægindi að telja sig geta barist gegn fasisma og haft gaman í leiðinni.

 

Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins.






×