Erlent

Hafnar kröfum Ungverja og Slóvaka um skiptingu flóttamanna

Atli Ísleifsson skrifar
Framkvæmdastjórn ESB vonast nú til að hægt verði að hraða skiptingu kvótaflóttamannanna milli aðildarríkjanna.
Framkvæmdastjórn ESB vonast nú til að hægt verði að hraða skiptingu kvótaflóttamannanna milli aðildarríkjanna. Vísir/Getty
Evrópudómstóllinn hefur hafnað kröfum ungverskra og slóvakskra stjórnvalda varðandi ákvörðun ráðherraráðs Evrópusambandsins um skiptingu kvótaflóttamanna á milli aðildarríkjanna.

Málið snýr að ákvörðun innflytjendaráðherra aðildarríkjanna sem tekin var á haustdögum 2015, þegar flóttamannastraumurinn til Evrópu var sem mestur. Var þar ákveðið að dreifa allt að 160 þúsund flóttamönnum, sem höfðu komið til Grikklands og Ítalíu, á milli aðildarríkjanna.

Ungverjar og Slóvakar mótmæltu ákvörðuninni, sem tekin var eftir atkvæðagreiðslu í ráðherraráðinu í Brussel. Vildu þeir meina að leiðtogar aðildarríkjanna hefðu átt að taka samhjóða ákvörðun um málið.

Þessu er Evrópudómstóllinn ekki sammála og segir ákvörðun ráðherraráðsins í samræmi við meginregluna um meðalhóf sem fram kemur í sáttmála sambandsins.

Framkvæmdastjórn ESB vonast nú til að hægt verði að hraða skiptingu kvótaflóttamannanna milli aðildarríkjanna. Einungis hafa um 28 þúsund af þeim 160 þúsund flóttamönnum sem samkomulagið kvað á um, verið fluttir til aðildarríkjanna.

Framkvæmdastjórnin lagði á sínum tíma áherslu á að kvótarnir væru bindandi fyrir öll aðildarríkin. Auk Ungverja og Slóvaka mótmæltu Tékkar og Rúmenar samkomulaginu.

Ungverjar hafa ekki tekið á móti einum einasta kvótaflóttamanni frá því að kvótarnir voru samþykktir fyrir tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×