Lífið

Haustspá Siggu Kling - Fiskurinn: Það er í þínu eðli að vera í sambandi

Elsku Fiskurinn minn, það er svo ríkt í eðli þínu að vera veislustjóri alveg sama í hvaða partíi þú ert. Sumir kalla það stjórnsemi en það er þér í blóð borið að redda og bjarga svo allt gangi vel, helst hjá öllum. Núna er það svo sterkt í orkunni þinni að gefast bara upp fyrir því sem þú getur ekki breytt og breyta aðeins því sem þú getur. Svo æðruleysisbænin góða á vel við í því sem þú ert að gera.

Þú hefur mikið til brunns að bera og í þér býr mikill skemmtikraftur, en það eina sem ég vil skila til þín frá hjartanu er: haltu í húmorinn þinn! Að hafa svo magnaðan húmor, eins og þann sem þú hefur, er ekki á allra færi. Kaldhæðni svífur oft yfir setningunum þínum og eins og Winston Churchill sagði þá er það að segja brandara háalvarlegt mál.

Það eru bara þeir sem hafa sterka tilfinningagreind sem geta tvistað á þessum sviðum eins og þú getur elskan mín. Þú verður svo öflugt tengdur við tilfinningagreind þína á þessu tímabili sem er að byrja og þess vegna sérðu líf þitt í öðru ljósi. Það gerir lífið svo miklu auðveldara og skemmtilegra.

Það er mikilvægt að þú athugir að hvert ár sem bætist við líf þitt gefur þér þroska og byggir upp þetta kómíska sjálfstraust þitt.

Ein besta vinkona mín, sem er í þessu algjörlega frábæra merki, þurfti alltaf að eiga sjóð á bak við sig til þess að þora og allt gekk mjög vel hjá henni. En svo kom sá dagur að hún þurfti að eyða þessum sjóði og þá virtist hún ekki hafa þor eða kjark til að koma neinu í framkvæmd. Hún gerði sér þá grein fyrir að sjóðurinn var þetta bakland sem leyfði henni að vera Fiskur. Núna er hún búin að byggja upp nýjan sjóð sem gerir hana afslappaðri og allt gengur upp þó hún hendi sér í djúpu laugina inn á milli. Skilaboðin í þessari sögu er að þú þarft að hafa eitthvað að treysta á, eitthvað sem þú byggir upp og gefur þér öryggi til þess að leyfa þér að synda út lífið og skapa það sem þú vilt, þegar þú vilt.

Þegar þú finnur til óöryggis, elskan mín, er það bara vegna þess að þér finnst grunnurinn ekki nógu sterkur. Þá ferðu að búa til í huga þínum að öll möguleg vitleysa muni mæta þér í lífinu, en þá missirðu húmorinn og það má ekki gerast. Þó að þér finnist þú óöruggur og einskis nýtur þá gefur þú samt frá þér svo mikla hlýju og umhyggju að fólk lítur á þig sem drottninguna eða kónginn í maurabúinu.

Það sem byrjaði að breytast í vor og það sem þér fannst jákvætt á því tímabili er að magnast upp á þessum komandi mánuðum sem þú ert að fara inn í. Þetta byrjaði kannski lítið en margfaldast og gefur þér hugrekki í öllu þínu veldi án þess að hafa hræðslu.

Það er í þínu eðli að vera í sambandi enda er fiskamerkið táknað með tveimur fiskum. Svo gefðu þig allan í að tengja þig ástargyðju eða goði sem skilur húmorinn þinn og þessa fallegu stjórnsemi sem í þér býr. Og sá aðili sem á að vera með þér er sá sem lætur þér líða eins og hann sé tryggt og öruggt bakland eða sá sjóður (og er ekki að tala um peninga) sem fær þig til að vaxa og vera afslappaður á sama tíma

Setningin þín er: Hugurinn leiðir mig til sigurs - Imagine (John Lennon)

Frægir Fiskar: Elísabet Ásberg listamaður, Beggi hans Pacasar, Baltasar Kormákur leikstjóri, Díana Ómel fjöllistakona, Árni Johnsen, fyrrverandi þingmaður, Albert Einstein, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Vigdís Hauksdóttir þingkona, Ilmur Kristjánsdóttir leikkona, Svavar Örn engill, Páll Óskar poppstjarna, Katla Sign og Baby Kling, Lína Rut listaperla, Nanna Lovísa dýranuddari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×